Eins og Viljinn hefur áður greint frá, eru yfirgnæfandi líkur taldar á því að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynni á næstunni um útgöngu sína úr stjórnmálum.
Nú hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, stigið fram og lýst sig tilbúna að taka við flokknum sem formaður og vonast til að flokksfólk treysti henni til þess að sinna því hlutverki.
„Ég vona að flokksmenn treysti mér í það, mig langar það, ég treysti mér í það og ég er tilbúin. Ég mun bjóða fram krafta mína og ég mun leggja á borð það erindi sem ég hef og tel að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að hafa inn í framtíðina á Íslandi.“ segir Þórdís í jólaviðtali Bylgjunnar við nöfnu sína Valsdóttur.
„En svo er það auðvitað undir flokksfólki komið hvort það verði sammála mér í því. Það verður bara að koma í ljós, en ég vona það,“ bætir Þórdís Kolbrún við.
Aðspurð um formannsframboð á næsta landsfundi, svarar hún því til að mikið vatn eigi eftir að renna til sjávar áður en næsti landsfundur fer fram, en bætir við:
„Við tökum bara einn landsfund fyrir í einu og það verður bara að koma í ljós hvernig málum vindur fram.“