Bjarni blæs borgarlínuna nánast af

Enginn sem fylgist sæmilega vel með umræðum um stjórnmál og viðskipti getur hafa undrast aðsenda grein Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í dag, þar sem hann undirstrikar nauðsyn þess að endurskoða strax forsendur og áform um samgöngusáttmála og borgarlínu, þar sem ljóst sé að áætlanir um kostnað séu fjarri öllum veruleika.

„Áætlaður kostnaður við verk­efni sam­göngusátt­mál­ans hef­ur nær tvö­fald­ast frá því sem gert var ráð fyr­ir og er nú 300 millj­arðar í stað þeirra 160 millj­arða sem upp­reiknuð kostnaðaráætl­un ger­ir ráð fyr­ir. Upp­haf­leg áætl­un var hins veg­ar upp á 120 millj­arða,“ segir Bjarni í grein sinni.

Hann bendir á að betur og betur sé að koma í ljós, að upp­haf­leg­ar áætlan­ir hafi verið stór­lega van­metn­ar og virðist það eiga við um nær alla þætti sátt­mál­ans. Hljómar það ansi kunnuglega í eyrum þeirra sem fylgst hafa með opinberum framkvæmdum hér á landi í gegnum tíðina, þar sem ætt er af stað á grundvelli óraunhæfra áætlana sem standast svo engan veginn og skattgreiðendur borga brúsann.

Bjarni bendir ennfremur nokkur dæmi um verkþætti sem komnir séu margfalt fram úr upphaflegu mati, t.d. Arn­ar­nes­veg­inn sem gert var ráð fyr­ir að myndi kosta 2,2 millj­arða en samningar nú séu um kostnað upp á 7,2 millj­arða, stokkur við Sæbraut hafi átt að kosta 3 milljarða en endi að lágmarki í 27 milljörðum og hafi þannig nífaldast í frumdrögum áður en einni skóflu hefur verið lyft. Sama sé að segja með borgarlínuna, hún sé nú talinn kosta 126 milljarða í framkvæmd en hafi átt að kosta 67 milljarða.

Og ljóst er af orðum fjármálaráðherra að ríkið ætli ekki eitt að borga brúsann. „Aug­ljóst er að upp­haf­leg áform munu ekki ganga eft­ir og ræða þarf um málið út frá þeirri staðreynd. Við þurf­um að for­gangsraða verk­efn­um í sam­ræmi við nýj­an veru­leika,“ seg­ir Bjarni.