Bjarni reynir að smala eigin köttum og telur pólitískan stöðugleika mikilvægan

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­málaráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, gerir heiðarlega tilraun til að smala köttum í viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem hann reynir að verja hið óvinsæla og umdeilda ríkisstjórnarsamstarf sem Sjálfstæðisflokkurinn á í með Vinstri grænum og Framsóknarflokki.

Fræg eru ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, að það færi of mikill tími í að smala saman meirihluta á Alþingi, slíkt væri eins og að smala köttum.

Bjarni segir í samtali við Morgunblaðið, að alltaf hafi legið fyr­ir að það yrði áskor­un að halda þriggja flokka stjórn­ar­sam­starfi áfram í lang­an tíma.

„Ég held að menn hafi nú tekið full djúpt í ár­inni og sum­um líður virðist vera á stund­um eins og öll sund séu lokuð en það er að sjálf­sögðu ekki þannig. Það breyt­ir því ekki að þing­lok­in voru viss von­brigði fyr­ir okk­ur í þing­flokki Sjálf­stæðismanna og ég held að það eigi við um hina stjórn­ar­flokk­ana reynd­ar líka.“

Á formanni Sjálfstæðisflokksins er að heyra, að staðan í pólítíkinni eftir kosningarnar 2017 og 2021 hafi ekki boðið upp á aðra kosti en þetta samstarf, þótt það sé á „margan hátt dálítið óvenjulegt.“

Í viðtalinu svarar hann þeim sjálfstæðismönnum sem hafa talað fyrir stjórnarslitum, eða að spilin verði með einhverjum hætti stokkuð upp á nýtt í ríkisstjórnarsamstarfinu:

„Sum­ir hafa sagt að það eigi bara að kasta þeim aft­ur á borðið og beðið um að það sé gefið upp á nýtt. Ég er ekki sann­færður um að það sé skyn­sam­legt. Ég held að það sé til mjög mik­ils vinn­andi að halda stöðug­leika í stjórn­mál­um á Íslandi og gef­ast ekki upp þó á móti blási.“

Seg­ist hann halda að kjós­end­ur kunni á end­an­um að meta þraut­seigju en auðvitað sé ekki hægt að fórna hverju sem er fyr­ir stöðug­leik­ann.

„Við vit­um hvaða mál það eru sem við vilj­um helst setja á odd­inn. Það þarf að gera átak í grænni orku­öfl­un. Það er of lítið búið að ger­ast í að afla nýrr­ar grænn­ar orku og í sum­um til­vik­um eins og við höf­um séð núna á síðustu miss­er­um erum við því miður að fara aft­urá­bak eins og Hvamms­virkj­un er dæmi um. Við verðum að hafa út­hald til að ná niður verðbólg­unni, það er gríðarlega mik­il­vægt.

Við þurf­um nauðsyn­lega að koma bönd­um á kostnað vegna hæl­is­leit­enda á Íslandi. Það er al­gjör­lega órétt­læt­an­legt að það fari meira en millj­arður á mánuði í að tak­ast á við þess­ar um­sókn­ir. Nú er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn með þetta ráðuneyti og við verðum ein­fald­lega að halda áfram að koma með til­lög­ur og berj­ast fyr­ir því að fá þær samþykkt­ar í þing­inu. Mögu­leik­ar okk­ar til þess munu ekki vaxa við það að ein­hverj­ir aðrir fari í dóms­málaráðuneytið.“

Og lokaorð hans eru þessi:

„Ef við kless­um á vegg, sem við höf­um ekki gert ennþá, þá skul­um við ræða stöðuna en það er bara ekki komið að því.“