Rektor Háskóla Íslands, rektor Háskólans á Hólum og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um aukið samstarf eða mögulega sameiningu skólanna tveggja. Fyrrverandi rektor Hólaskóla segir þetta furðulegt og óskiljanlegt.
Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra er jafnframt fyrrverandi rekstor Háskólans á Hólum. Hann telur þetta mikil ótíðindi og er ósáttur við örlög þessa fornfræga skóla og hlut Skagafjarðar í þessum fyrirhuguðu breytingum. Hann bendir á að Hólaskóli hafi átt mikið og gott samstarf við Háskóla Íslands á undanförnum árum á hinu faglega sviði og báðir haft hag af.
„En best hefur farið á að hver skóli fari með sína eigin stjórn og á heimavelli,“ skrifar hann á vefsíðu sína og bætir við að hann hafi verið skólastjóri á Hólum í 20 ár og alltaf komið upp hugmyndir utanfrá um að leggja skólann niður og færa hann undir aðrar stofnanir.
„Yfirleitt kom slíkt frá einstaklingum og ráðherrum sem þekktu ekkert til, báru litla virðingu fyrir sögu og menningu þjóðarinnar, höfða varla komið Heim að Hólum nema í mýflugumynd. En sem betur fer var til sterkt fólk og framsýnir aðilar sem stóðu með Hólum í Hjaltadal og tryggðu veg staðarins og virðingu sem og öflugs menntaseturs sem öll þjóðin gat verið stolt af.“
Jón var lengi alþingismaður og ráðherra Vinstri grænna og greinilegt að hann er ósáttur við sinn gamla flokk að taka þátt í þessum gjörningi.
„Það er dapurlegt ef þetta verður minnisvarði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að leggja Hóla í Hjaltadal niður sem menntasetur og færa hreyturnar á mölina undir Háskóla Íslands í Reykjavík sem hingað til hefur átt nóg með sig sjálfan. Þessar hugmyndir ber að afturkalla þegar í stað og standa að baki Hólastaðar og Hólaskóla – Háskólans á Hólum af fullum metnaði,“ segir hann ennfremur.