Stjórnmálaályktun sem flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs samþykkti í Reykjanesbæ í dag, verður að teljast einhver sú sjálfhverfasta sem sést hefur lengi á vettvangi íslenskra stjórnmála og er þó úr mörgu að velja.
Í ályktunni eru engin merki um að flokkurinn sé við það að þurrkast út úr skoðanakönnunum, en þvert á móti er í löngu máli hrósað verkum ráðherra flokksins, meðan ákvarðanir samráðherra eru gagnrýndar eða jafnvel fordæmdar.
„Flokksráðsfundur fordæmir ákvörðun þáverandi utanríkisráðherra að styðja atlögu Ísraelsríkis að mannúðaraðstoð á Gaza með yfirlýsingu um að frysta fjárframlög til Flóttamannaaðstoðarinnar. Fundurinn fagnar því að fjárframlög flóttamannaaðstoðarinnar hafi verið aukin umtalsvert,“ segir þannig á einum stað í ályktuninni, en utanríkisráðherrann þáverandi sem þarna um ræðir, er einmitt forsætisráðherrann Bjarni Benediktsson.
Svandís Svavarsdóttir er tiltölulega nýtekin við sem innviðaráðherra og ætlar sér vafalaust formennsku í flokknum í haust. Í ályktunni segir svo um hennar málaflokk:
„Brýnt er að stefna að hágæða almenningssamgöngum um land allt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og byggja upp greiðar leiðir og fjölbreytt samfélag. Fundurinn hvetur innviðaráðherra til dáða, enda ærið verk að vinna en tækifærin mikil á næstunni í samgöngumálum. Almenningssamgöngur fela í sér mikilvæga kjarabót fyrir vinnandi fólk og fjölbreyttir ferðamátar eru leið til þess að efla lýðheilsu en jafnframt stuðla að vistvænna samfélagi. Fundurinn bendir á að við forgangsröðun framkvæmda þurfi ávallt að hafa grundvallargildi um félagslegt réttlæti og jöfnuð í forgrunni ásamt því að auka umferðaröryggi. Brýnt er að ljúka við uppfærslu Samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu og koma Borgarlínu til framkvæmda.“
Verði ykkur að góðu!
Í ályktuninni segir ennfremur:
„Fundurinn minnir á mikilvægi félagslegs eignarhalds á helstu innviðum og varar við aukinni markaðshyggju, einkavæðingu og pilsfaldakapítalisma. Vinstri græn hafna frekari markaðsvæðingu í sölu raforku, heilbrigðis- og velferðarþjónustu, í menntakerfinu og í áfengissölu. Einkaaðilar áforma nú stórar virkjanir út um allt land en mikilvægt er að orkuöflun og orkuinnviðir séu í opinberri eigu og undir stjórn opinberra fyrirtækja. Aukin einkavæðing og einkarekstur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu er varhugaverð, grefur undan opinberri þjónustu og ógnar jöfnuði í samfélaginu.“
Þetta eru allt saman skýr skilaboð til borgaralegra afla um að ekkert mun breytast, meðan VG á aðild að ríkisstjórn.
Að lokum ályktaði flokksráð VG svo enn frekar um eigið ágæti og mikilvægi:
„Að lokum vill fundurinn ítreka að erindi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í íslenskum stjórnmálum er ótvírætt og hvetur forystu hreyfingarinnar og alla félaga til að halda gildum okkar og góðum árangri á undanförnum árum á lofti í pólitískri umræðu.“
Óhætt er að segja við Bjarna Benediktsson og félaga í Sjálfstæðisflokknum, eftir þennan lestur: „Verði ykkur að góðu.“