Auknar líkur eru nú á að þeim flokkum, sem vilja gera kosningabaráttuna að eins máls umræðu um útlendingamál, takist það. Þetta er mat Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hefur stór orð uppi um ríkisstjórnina og stjórnarflokkana og sakar þá um að hafa blekkt þjóðina af ráðnum hug um raunverulega stöðu í útlendingamálum.
Eins og Viljinn hefur greint frá undanfarna daga, voru yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um sameiginlega og heildstæða sýn í útlendingamálum ekki orðnar nema dagsgamlar, þegar í ljós kom að félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra töluðu í norður og suður um næstu skref og þingflokkur VG kynnti seint og um síðir margvíslega fyrirvara við frumvarp dómsmálaráðherrans um hælisleitendur.
Þorsteinn segir í vikulegum pistli sínum Af kögunarhóli á Eyjunni/DV, að forysta ríkisstjórnarinnar hafi einfaldlega sagt ósatt. Það hlýtur að teljast stór yfirlýsing frá fyrrverandi forsætisráðherra, sem ekki er þekktur fyrir að taka þátt í keppni í yfirlýsingum, alla jafna.
„Á Alþingi í vikunni kom fram að nokkurra daga gamlar yfirlýsingar um sameiginlega sýn stjórnarflokkanna í útlendingamálum reyndust vera ósannar. Svo virðist sem forystumenn flokkanna hafi af ráðnum hug blekkt þjóðina um raunverulega stöðu málsins.
Varaformaður VG hefur upplýst að forystuflokkur ríkisstjórnarinnar hafi hvað eftir annað staðið andspænis hótunum sjálfstæðismanna. Annað hvort var að samþykkja allt eða ekkert. Það hefur svo leitt til þess að þingmenn VG hafa lýst margvíslegum fyrirvörum við frumvarp dómsmálaráðherra um útlendingamál, sem vera átti fyrst skrefið í sameiginlegri sýn.
Vinnubrögð af þessu tagi sýna glöggt að stjórnarflokkarnir geta ekki eða vilja ekki gera málamiðlanir á þessu sviði fremur en öðrum. Það er einfaldlega ekki ríkisstjórn í landinu, sem unnt er að kalla því nafni,“ skrifar Þorsteinn.