Ekki svigrúm fyrir frekari málamiðlanir eða tafaleiki hjá Vinstri grænum

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. ráðherra.

Jón Gunnarsson, þingmaður og Sjálfstæðisflokksins og fv. dómsmálaráðherra, brást við fyrirvörum Vinstri grænna við frumvarp dómsmálaráðherra um útlendingamál, á þingi í dag er hann sagðist hafa áhyggjur af afstöðu og málflutningi samstarfsflokksins í þessum málum.

Eins og Viljinn greindi frá í gærkvöldi, hafa Vinstri græn gert margvíslega fyrirvara við frumvarpið og eins hafa þeir sagt berum orðum að þeir séu ekki spenntir fyrir áformum um lokuð búsetuúrræði. Hörð gagnrýni kom fram á störf utanríkisráðherra, Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, á flokksráðsfundi VG um síðustu helgi og þingflokkur VG gerði nýlega mikla fyrirvara við frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum.

Innan Sjálfstæðisflokksins er vaxandi reiði í garð samstarfsflokksins. Vinstri græn eru sökuð um að tefja mál; gera samkomulag en ætla aldrei að standa við það og svo framvegis. Það eigi við um útlendingamálin, orkumálin og margt fleira.

„Ég hef áhyggjur af afstöðu og málflutningi þingmanna og hæstv. ráðherra Vinstri grænna. Ég heyri að forsætisráðherra segir mikilvægt að nálgast Norðurlöndin í regluverki. Það er sama nálgun sem við Sjálfstæðismenn erum með, en á sama tíma talar félagsmálaráðherra um það að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu stöðugt að stilla Vinstri grænum upp við vegg í þessum mikilvæga málaflokki,“ sagði Jón Gunnarsson á þingi í dag.

Og hann bætti við:

„Ég óttast tafaleiki við vinnslu málsins. Það er að mínu mati ekki í boði að ekki verði brugðist við því ástandi núna með því að breyta lögunum á þessu kjörtímabili, á þessu þingi. Það er ekki svigrúm, að mínu mati, til frekari málamiðlana um þetta mál. Þetta eru allt saman mjög brýnar breytingar og í einhverjum tilfellum þyrfti eflaust að ganga lengra.“