Félagslegar áherslur Katrínar skila VG auknu fylgi

Maskína birtir nýja skoðanakönnun um fylgi flokkanna í dag, sem felur í sér nokkuð hnýsileg tíðindi. Þau helst að Vinstri græn taka merkjanlegt stökk upp á við, að líkindum eftir að félagslegar áherslur flokksins náðu fram að ganga í kjarapakka ríkisstjórnarinnar, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði forystu um. VG mælist með 6,7% fylgi og hefur ekki mælst stærri í könnunum fyrirtækisins um alllangt skeið.

Framsóknarflokkur (9,4%), Miðflokkurinn (11,9%), Viðreisn (9,7%) og Píratar (9,5%) bæta allir við sig fylgi, mismikið þó. Samfylkingin er enn langstærsti flokkurinn, en dalar þó um hálft annað prósentustig eða svo milli mánaða og fengi 25,6%. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 18% sem er aðeins lægra en í fyrra mánuði (18,4).

Flokkur fólksins er með næstminnst fylgi (5,7%) og Sósíalistaflokkurinn væri áfram utan þings, með 3,5% fylgi.

Samandregið má segja að VG hafi endurheimt nokkuð af fylgistapi sínu yfir til Samfylkingarinnar. Framsókn er að vakna aðeins aftur til lífsins og búnir að dusta rykið af slagorðinu Kletturinn í hafinu fyrir komandi flokksþing og að Miðflokkurinn hefur treyst sig í sessi sem þriðji stærsti flokkurinn, væri kosið nú.