„Fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil – eiginlega bara pínu- eða ponsulítil – mús. Mér sýnist að það eina jákvæða við þessar aðgerðir sé að senda eigi fólk í auknum mæli til þeirra landa, þar sem þau hafa nú þegar fengið alþjóðlega vernd, þ.e.a.s. við ætlum að fara eftir Dublin-samkomulaginu. Þá eru VG hugsanlega – en þó sennilega ekki – til í að skoða búðir fyrir flóttamenn við komu þeirra til landsins og aðrar brottfararflóttamannabúðir, þar sem þeir eru geymdir, sem er búið að svipta dvalarleyfi, þangað til þeim þóknast að yfirgefa landið. Ég sé því ekki hvaða virkilegar breytinar eru að eiga sér stað á næstu árum og hér því enn eitt dæmið um hálfgerðan popúlisma að ræða og svipaða uppskrúfaða dyggðaskreytingu og við höfum séð síðan í umræðunni um útlendingalögin á árunum 2016 og 2016,“ segir Guðbjörn Guðbjörnsson yfirtollvörður og stjórnsýslufræðingur í hugleiðingu dagsins um boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda og hælisleitenda sérstaklega.
„Ljóst er að þessi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG vill eyða enn meiri peningum í að kenna flóttamönnum íslensku til að við Íslendingar getum aðlagast þeim betur. Þetta sést á því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra VG talaði nokkrum sinnum um orðið ‘inngildingu’ sem skv. alfræðiorðabók fjölmenningarstofu Reykjavíkurborgar þýðir: „Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika sem sjálfsagðan hlut og lögð er áhersla á inngildingu (e. inclusion). Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum.“ Ekki var einu orði eytt í að útskýra hvernig fólk frá fjarlægum menningarsvæðum á að aðlagast okkar samfélagi, stjórnarskrá og lögum. Eða hvernig á að koma þessu fólki í skilning um hvernig það á að vinna fyrir sér og sínum svo að vel sé?
Á alls ekki að leiða til fækkunar flóttamanna
Þá virðist mikil áhersla lögð á ‘rótfestingu’ erlendra flóttamanna á meðan að nágrannaríkin leggja í dag meiri áherslu á að flóttamenn komi tímabundið til landsins og eigi að snúa til baka um leið og hægt er, þ.e.a.s. þegar þeim er engin hætta lengur búin. Þannig eru flóttamenn í Danmörku farnir að streyma aftur til Sýrlands af því að þar er að mestu kominn á friður. Þessu til viðbótar á að kynna flóttamönnum meira ‘kynseginmál’, femínisma’ en þó með áherslu á ‘trans-femínisma’ en ekki ‘transútilokandi femínisma’, sem ætti að gera Íslendingum kleyft að aðlagast betur flóttamönnunum með nýrri ‘inngildingarstefnu’ vinstri stjórnarinnar.
Með því að stytta biðtímannn fyrir flóttamenn að fá svar, sé hægt að auka ‘mannúð’ gagnvart þeim. Guðmundur Ingi lagði jafnframt gríðarlega áherslu á að meiningin væri ALLS EKKI að þetta ætti að leiða til færri flóttamanna. Færa á þó löggjöfina í átt að því sem gerist á Norðurlöndunum, án þess þó að fækka flóttamönnum.
Aðaláherslan er að sögn vinstri stjórnarinnar að taka raunveruleg skref til að draga úr stéttaskiptingu milli innfæddra Íslendinga og flóttamanna; jafna tækifæri Íslendinga og flóttamanna, þ.e. óháð hvaðan fólk kemur. Með öðrum orðum eigum við ekki einungis að flytja inn bara fólk til að vinna fyrir okkur skítverkin, heldur eigum við að flytja inn fleiri menntaða flóttamenn (en sjálfir væntanlega að sjá um okkar eigin skítverk). Nú verður áhersla lögð á að flytja inn menntað fólk, viðurkenna þeirra prófgráður og gefa þeim tækifæri til að keppa við íslenska menntamenn á jafnréttisgrundvelli. Þessu hljóta íslenskir menntamenn og iðnaðarmenn að fagna sérstaklega. Til að gæta allrar sanngirni þá virðast stjórnvöld vilja fækka þeim sem ekki eiga séns á að fá dvalarleyfi (ekki með menntun eða kunnáttu) en fjölga hins vegar í staðinn ómenntuðu fólki úr flóttamannabúðum, en í þessu er fólgin ákveðin mótsögn.
Vinstri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG er mjög skýr á því að ALLS EKKI sé verið að reyna að koma í veg fyrir komu flóttamanna hingað til Íslands. Þetta er í algjöru samræmi við orð Þórdísar Kolbrúnar fjármálaráðherra hjá Viðskiptaráði í síðustu viku, þar sem hún talaði um að fjölga innflytjendum, íslenskum þrælahöldurum til mikillar ánægju. Þarna talar Guðmundur Ingi (VG) skýrt og skorinort undir með Þórdísi (Sjálfstæðisflokkurinn) og leggur á þetta atriði mikla áherslu, heldur er núverandi ríkisstjórn einungis að ná fram aukinni skilvirkni í kerfinu, þ.e.a.s. að hraða umsóknarferlinu og ná fram auknum afköstum, afgreiða og samþykkja fleiri umsóknir og miklu hraðar en áður,“ bætir hann við.
Öll heimsbyggðin undir?
Og Guðbjörn segir ennfremur:
„Ríkisstjórnin er sammála um að nálgast flóttamannamálin á framangreindan ‘heildrænan hátt’ til að tryggja komu flóttamannanna frá því að þeir koma og þar til að þeir hafa ná hér á Íslandi góðri og varanlegri rótfestu. Auka þarf þjónustu heilbrigðiskerfisins til muna og setja í það mikla peninga svo að það sé í stakk búið til að hjálpa rausnarlega til í geðheilbrigðismálum fyrir flóttamenn en einnig áfallastreituhjálp og margt fleira sem hrjáir flóttamennina. Að sögn þarf einnig að auðvelda flóttamönnum að fá atvinnuleyfi, ekki bara leyfa útlendingum frá EES að fá slíkt leyfi heldur tryggja allri heimsbyggðinni, sem hefur áhuga á að leggja leið sína til Íslands atvinnuleyfi.“
Og lokaorð hans eru þessi:
„Það var eiginlega röng fullyrðing hjá mér í upphafi þessa pistils, að fjallið hefði tekið jóðsótt og fæðst hafi lítil mús. Nei, það fæddist minnsta mús í heimi, þ.e. Afríska dvergmúsin, sem er 3,5 sentímetrar á lengd og aðeins um 3 grömm að þyngd en í samanburði er íslenska húsamúsin algjör risi eða 12-25 grömm. Ekki þarf að óttast mýs, því þær eru ósköp krúttlegar og algjörlega meinlausar.“