Eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur:
Auðvitað hefði það átt að segja okkur eitthvað eftir síðustu þingkosningar að ríkisstjórnin þurfti heila tvo mánuði til að geta sagt það upphátt að þau ætluðu að halda þessu samstarfi áfram.
Það tók heila tvo mánuði að mynda ríkisstjórn sem þegar var til.
Það er reyndar lýsandi fyrir það akút verkstol sem hrjáir ríkisstjórnina.
Skilaboðin út á við voru þau að flokkunum væri eiginlega skylt að halda áfram. En neistinn var enginn.
Verkstol
Í aðdraganda síðustu kosninga höfðu ríkisstjórnarflokkarnir starfað saman í fjögur ár. Stærstan hluta tímans voru Þórólfur, Víðir og Alma við völd. Það þríeyki vann saman sem heild og sendi ríkisstjórninni minnisblöð um hvað skyldi gera. Þingi var svo slitið 13. júní 2021. Kosið var 25. september en nýr stjórnarsáttmáli sömu stjórnar ekki kynntur fyrr en 28. nóvember.
Nú berast ekki lengur nein minnisblöð. Og nýja þríeykið gerir ekkert.
Fjölskyldur eru alls konar
Fyrsta verk eftir endurnýjuð heiti gaf tóninn: Að stofna ný ráðuneyti með lengri nöfn og fjölga ráðherrastólum. Markmiðið var að tryggja að VG gæti haldið sama fjölda ráðherra þrátt fyrir mikið fylgistap. Kostnaðurinn við þetta eru um 2 milljarðar á kjörtímabilinu.
Útgjöld eru alltaf meiri en tekjur. Skattar á heimili og fyrirtæki leka jafnt og þétt úr fjármálaráðuneytinu. Flest frumvörp læsast inni á ríkisstjórnarfundum. Þegar bent er á verkstolið er svarið að fólk verði jú að skilja að mamma og pabbi sjá hlutina ekki eins. Fjölskyldur séu alls konar. Á erfiðum dögum bætist svo það svar við að stjórnarandstaðan sé nú heldur ekkert að hjálpa stjórninni neitt sérstaklega.
Ríkisstjórn sem getur aðeins mætt til vinnu við þær aðstæður að stjórnarandstaðan mæti þeim klappandi í þinghúsinu glímir við verkkvíða.
Hópefli í rútu
Á tveggja ára afmæli endurnýjaðra hjúskaparheita dró samt til tíðinda. Ríkisstjórnin leigði rútu, keypti bjór og fór í hópefli á Þingvelli. Svo gerðist áfram ekkert. Þar til að Sjálfstæðisflokkurinn er nú farinn í sitt eigið rútuferðalag. Á rútunni standa skilaboðin til einhvers: „Flautið ef þið viljið lægri skatta“.
Þingflokkurinn sjálfur á hins vegar enga flautu. Og þjóðin veit að allar flautur heimsins fá Sjálfstæðisflokkinn ekki til að lækka skatta á fólkið í landinu. Katrín gæti nefnilega í dag allt eins stýrt Sjálfstæðisflokknum og Bjarni Benediktsson væri sterkt formannsefni hjá VG.
Á sjöunda ári er Stokkhólmsheilkennið helst lýsandi um samstarfið. Birtingarmyndirnar blasa við: Þegar Bjarni færir sig til um einn ráðherrastól er formaður VG raunstolt af ábyrgðartilfinningu hans. Og þegar VG bíður svo lengi með að afgreiða útlendingafrumvarp frá þingflokki svo það komist ekki til umræðu í þinginu, þá sameinast þingmenn Sjálfstæðisflokks um að réttast sé að skamma bara Pírata.
Og enn er nokkuð eftir. Flautið ef þið viljið frelsi frá þessu.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.