Kjaradeilur eru undarlega snar þáttur í fréttum íslenskra fjölmiðla og einstakir forystumenn verkalýðsfélaga komast reglulega í sviðsljósið þegar kjarabarátta þeirra stendur sem hæst.
Oft hafa þessir forystumenn auðvitað ýmislegt til síns máls og hljómgrunnur meðal þjóðarinnar fyrir málflutningi þeirra, en forsvarsmenn flugumferðarstjóra hafa alveg einstakan hæfileika til að strjúka fólki öfugt með baráttuaðferðum sínum, eins og skyndiverkföll þeirra nú í aðdraganda jóla eru glöggt dæmi um.
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjórar, mætir í viðtöl með derhúfu og gefur augljóslega ekkert fyrir almenningsálitið, ætlar þess í stað enn einn ganginn að stilla samningsaðilum sínum upp við vegg og knýja kjarabætur fram með verkföllum í þriðja sinn á fimm árum.
Arnar þessi hefur greinilega ekki sótt sér mörg ráð í framkomu við fjölmiðla. Hann sagðist aðspurður ekkert vita um meðallaun stéttarinnar sem hann er í forsvari fyrir, en þau eru um 1,6 milljón króna á mánuði. Þá segir hann ekkert til í því að reikna megi kaupkröfur flugumferðarstjóra upp í 25% hækkun, en bætir því við í öðrum viðtölum að kannski sé hægt að finna þær tölur út með því að leggja kröfurnar saman.
Það er því augljóslega ekki mikið að marka það sem þessi ágæti maður segir í viðtölum, nema kannski það að hann viðurkennir að almenningsálitið hafi af einhverjum ástæðum aldrei verið með flugumferðarstjórum og baráttu þeirra.
Hvernig skyldi nú standa á því?
Óaðgengilegar kröfur
Frægt er þegar Reagan Bandaríkjaforseti sagði upp á tólfta þúsund flugumferðarstjórum í Bandaríkjunum í ágústmánuði 1981, þegar lög höfðu verið sett á verkfall þeirra á grundvelli þjóðaröryggis og hluti þeirra neitaði samt sem áður að mæta til vinnu. Ekki er líklegt að löggjafinn hér á landi muni grípa til jafn róttækra aðgerða, en jafnvíst að lög á þetta verkfall hljóta þegar að vera komin til skoðunar í viðeigandi ráðuneytum.
Auðvitað er staðan sú um þessar mundir, að hvorki Samtök atvinnulífsins né ríkið sem eigandi Isavia geta með nokkru móti gengið að kröfum flugumferðarstjóra þegar ljóst er að þær eru úr öllu samhengi við það sem aðrir hafa fengið og í aðdraganda tilraunar til nýrrar þjóðarsáttar til að ná verðbólgunni niður.
Það blasir við öllum sem eitthvað þekkja til mála á vinnumarkaði. Það er umhugsunarefni að flugumferðarstjórum sé alveg sama þótt fólki finnist kröfur þeirra úr öllum takti. Það er líka umhugsunarvert að þeir vilji skemma fyrir flugfélögunum, íslenskri ferðaþjónustu og flugfarþegum á leið í jólafrí með aðgerðum sínum.
Ef einhvern tímann hefur verið ástæða fyrir Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA, og samstarfsfólk hennar til að vera grjóthörð við samningaborðið er það nú. Það er of mikið undir til að gefa eftir í þessum slag.