Framsókn „sporðrennt öllum stefnumálum“ Dags B. Eggertssonar án þess að blikna

Borgarsstjórinn í Reykjavík, Einar Þorsteinsson.

„Við vitum það að umferðin í borginni er sprungin og við vitum það að húsnæðismarkaðurinn er í heljargreipum. Við vitum einnig að meirihlutinn, sem nú er undir stjórn framsóknarmanna, hefur ekki aðeins neitað að breyta um stefnu eins og núverandi borgarstjóri lofaði, heldur virðast framsóknarmenn í borginni hafa sporðrennt öllum stefnumálum meirihluta Dags B. Eggertssonar án þess að blikna,“ skrifar Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Hann nefnir í grein sinni, að jarðeldar á Reykjanesi þýði að hugsa þurfi skipulag höfuðborgarinnar og nærliggjandi byggða upp á nýtt, auk þess sem fólksfjölgun sé langt umfram spár sem gildandi aðalskipulag taki mið af. Þá sé ljóst að Reykjavíkurflugvöllur fari ekkert úr Vatnsmýrinni, næstu tuttugu árin, hið minnsta.

Þéttingarstefna meirihlutans muni ekki ein og sér duga til og líta verði til nýrra byggingarkosta, t.d. á Geldingarnesi og á Kjalarnesi, huga að aukinni byggð í Úlfarsárdal og flýta Sundabraut eins og kostur er.

Friðjón segir meirihlutann „loka augunum fyrir framtíðinni“ og þess sem er í vændum. Allt sé það gert til að þurfa ekki að viðurkenna að „sú einstrengingslega stefna sem borgarbúar hafa hafnað trekk í trekk“ sé gjaldþrota.

Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi.