Óhætt er að segja að kosningabragur sé af áformum sem birtust í dag með drögum Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra að breytingum á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, sem hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í síðustu kosningabaráttu sótti Framsóknarflokkurinn mjög í sig veðrið meðal kvikmyndagerðarfólks með hækkun á endurgreiðslu kostnaðar og nú á að veðja á skapandi greinar almennt, með stórfelldum breytingum á listamannalaunum, fjölgun launþega og hækkun launanna sjálfra.
Vakin er athygli á í tilkynningu ráðuneytisins, að breytingarnar séu lagðar til „í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar, sem fram kemur í sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf, að unnið skuli að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna með sérstakri áherslu á að starfslaunin tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar“.
Fjöldi starfslauna hefur haldist óbreyttur í 15 ár eða frá því að gildandi lög tóku gildi árið 2009.
Breytingar í frumvarpinu fela í sér fjölgun launasjóða sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða. Starfslaunamánuðum verður fjölgað úr 1.600 í 2.850 á tímabilinu og þremur nýjum sjóðum bætt við kerfið; Launasjóði kvikmyndahöfunda, Vexti sjóði 35 ára og yngri og Vegsemd sjóði listamanna 67 ára og eldri.
Lagt er til að breytingarnar verða innleiddar í skrefum á árunum 2025-2028 og að viðbótarkostnaðurinn verði í heildina 700 milljónir og skiptist eftirfarandi:
2025: 124 millj. kr.
2026: 280 millj. kr.
2027: 490 millj. kr.
2028: 700 millj. kr.
Kostnaður við listamannalaunin eru í dag 978 milljónir. Breytingarnar verða innleiddar í skrefum á árunum 2025-2028 og er ráðgert að viðbótarkostnaður verði í heildina 700 milljónir þegar fullri hækkun er náð. Þá er heildarkostnaðurinn 1678 milljónir. Mánaðaraukning fer úr 1600 í 2850 á 4 árum og er því tæplega tvöföldun.
Saga listamannalauna á Íslandi
„Saga starfslauna nær allt aftur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skáldalaun. Stuðningur við listamenn nær allt til síðustu áratuga 19. aldar með einstökum fjárveitingum til þeirra. Árin 1886 og 1887 var til að mynda Guðrúnu Waage veittur styrkur til að nema sönglist og árið 1891 var Matthíasi Jochumssyni veitt skáldalaun og Torfhildi Hólm var veittur styrkur til ritstarfa.
Lög um listamannalaun voru hins vegar fyrst sett árið 1967 og um áratug síðar voru sett lög um launasjóð rithöfunda. Þessi tvenn lög voru leyst af hólmi með nýjum lögum um listamannalaun sem sett voru árið 1991 og síðan með gildandi lögum frá 2009. Fyrirliggjandi tillaga um breytingar á lögunum er því fyrsta efnislega endurskoðunin frá árinu 2009,“ segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.