Hægir á uppbyggingu húsnæðis þrátt fyrir metfjölgun íbúa og viðvarandi skort

Tölvugerð mynd af íbúðabyggingu Þorpsins í Gufunesi.

Merki eru um að brátt fari að hægja á uppbyggingu húsnæðis hér á landi þrátt fyrir viðvarandi skort á húsnæði, neyðarástand á leigumarkaði og metfjölgun íbúa á landinu.

Íbúðum á fyrsta byggingarstigi fjölgar ekki eins og síðustu ár, samkvæmt nýrri Hagsjá Landsbankans, og færri ný byggingarverkefni fóru af stað milli síðustu tveggja talninga HMS en áður. Einnig er algengara en áður að framvinda í uppbyggingu íbúða standi í stað.

„Síaukin þörf á húsnæði hefur líklega hjálpað til við að halda lífi í íbúðamarkaði á sama tíma og þættir á borð við hærri vexti og minna aðgengi að lánsfé hafa slegið á eftirspurnina. Íbúum á Íslandi fjölgar sífellt hraðar og á öðrum ársfjórðungi þessa árs voru þeir 3,4% fleiri en á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Fjölgunin hefur aldrei verið meiri og því athyglisvert að merki séu um að á næstunni hægi á uppbyggingu íbúða,“ segir í Hagsjánni.

Enn bendir flest til þess að nýjar íbúðir rísi með svipuðum hraða og í fyrra. Velta í byggingariðnaði eykst enn og starfsfólk í greininni hefur ekki verið fleira frá árinu 2008.