Hefur borgarstjórinn gleymt árunum í Sjálfstæðisflokknum?

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri í Reykjavík, er í viðtali í nýjasta hefti Reykjavik Grapevine og kveðst þar hafa viljað venda kvæði sínu í kross eftir átján ár í fjölmiðlum og gera eitthvað nýtt.

Hann kveðst hafa komið heldur óvænt inn í heim stjórnmálanna þegar hann varð leiðtogi Framsóknarflokksins í borginni og hann hafi aldrei áður tengst nokkrum stjórnmálaflokki.

Eða eins og það er orðað í blaðinu: „I’ve never been affiliated with any political party or imagined myself going into politics.“

Það er athyglisvert, því þessi sami Einar var einmitt á yngri árum um skeið formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi og í frétt Viljans, fyrir rúmum tveimur árum, sem lesa má hér, var einmitt sagt frá því að nokkrir sjálfstæðismenn í Kópavogi hefðu skorað á hann að gefa kost á sér í prófkjör flokksins fyrir komandi bæjar- og sveitarstjórnarkosningar.

Einar flutti svo úr Kópavogi og í borgina, lagði undir sig forystu í framboði Framsóknarflokksins, sem landsliðsmaðurinn Björgvin Páll Gústafsson hafði verið vandlega mátaður við og kom svo, sá og sigraði í borgarstjórnarkosningunum.

Og er nú nýorðinn borgarstjóri í Reykjavík. Og löngu búinn að gleyma bæði Kópavogi og bernskubrekum í Sjálfstæðisflokknum…