Heimamenn á hverjum stað vilja fyrst og fremst hafa örlög sín í eigin höndum

Bjarni Benediktsson tekur í höndina á ungum manni á fjölmennu vöfflukaffi á Reyðarfirði.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er kominn heim úr sinni árlegu hringferð um landið, en undanfarna daga hafa kjörnir fulltrúar flokksins, ráðherrar og þingmenn, fundað á 18 stöðum hringinn í kringum landið og heimsótt vinnustaði þar sem fólki gafst tækifæri til að eiga beint og milliliðalaust samtal um þau mál sem helst á brenna.

Viljinn sló á þráðinn til Hildar Sverrisdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins í gærkvöldi, til að heyra hvernig tónninn hefði verið í fólki.

„Það er alltaf jafn skemmtilegt að eiga milliliðalaust samtal við sjálfstæðismenn og aðra kjósendur um allt land. Á kjósendum brenna helst orkumál, útlendingamál, atvinnumál og samgöngumál. Greina mátti ákveðinn blæbrigðarmun milli landshluta og sveitarfélaga en þó er afar ánægjulegt að heyra þann rauða þráð að heimamenn á hverjum stað vilja fyrst og fremst hafa örlög sín í eigin höndum,“ segir Hildur.

Greinilegt er að þingmenn koma vel nestaðir að nýju inn í komandi þingstörf. Hildur tekur undir það.

„Framsækið fólk vill einfaldlega fá verkfæri til að geta gripið þau tækifæri sem þeirra sveitarfélag hefur upp á að bjóða. Það er afskaplega gott veganesti til að taka með á Alþingi. Við þingmenn sitjum þar í umboði þessa fólks sem brennur fyrir sínu samfélagi og það er okkar hlutverk að hjálpa þeim að plægja akurinn fyrir áframhaldandi vöxt blómlegrar atvinnu og byggðar um allt land”.

Síðar á árinu verður farið til Vestmannaeyja, á Snæfellsnes, á Vestfirði og á Höfuðborgarsvæðið. Þær heimsóknir verða auglýstar sérstaklega.