Hugleiðingu dagsins á Vigdís Bjarnadóttir, sem þekkir starfsskyldur forseta Íslands, út og inn:
„Það eru margir vinir mínir sem spyrja mig þessa dagana: Hvern viltu fá sem forseta? „Þú þekkir þetta embætti svo vel, veist hvað þarf til“.
Ég hef tekið eftir því í umræðunni um embættið að margir hafa mjög litla hugmynd um starf forseta Íslands. Ég starfaði náið með forseta Íslands í um 39 ár á skrifstofu forseta Íslands, með þremur forsetum, fyrst með Kristjáni Eldjárn í 12 ár, svo Vigdísi í 16 ár og Ólafi Ragnari í 11 ár. Ég vann við fjármál, starfsmannahald og prótokoll hjá embættinu og ferðaðist vítt og breitt um heiminn með bæði Vigdísi og Ólafi Ragnari. Margt hefur auðvitað breyst síðan ég hætti þar 2007. En það eru ákveðin gildi sem varða embættið sem alltaf munu vera eins.
Eins og alþjóð veit voru þetta afar ólíkir einstaklingar og komu, hver á sinn hátt, með nýja sýn og ný viðhorf inn í embættið og mótuðu það á sinn hátt. Það sama má auðvitað segja um þá tvo forseta sem sinntu starfinu á undan þeim og núverandi forseta okkar. Það er engin uppskrift að því hvaða kostum forsetaframbjóðandi þarf að búa yfir, en gott að átta sig á að sumt er afar nauðsynlegt að kunna og geta gert.
Mín skoðun er sú að Alþingi hafi trassað of lengi að breyta reglunni um fjölda meðmælenda, sem hver frambjóðandi þarf að leggja fram. 5-10 þúsund meðmælendur ætti að vera hæfilegt fylgi sem hver frambjóðandi ætti að byrja með. Kosningar eru dýrt dæmi, bæði fyrir frambjóðendur og þjóðina. En 1500 meðmælendur, eins og ákveðið var í upphafi lýðveldisins, gera kosningarnar óþarflega flóknar í dag. Nú er talið að framboð kosti um 20 milljónir að lágmarki.
Og hvað þarf svo frambjóðindinn að hafa til brunns að bera?
Að mínu mati þarf hann fyrst og fremst að vera afar vel menntaður, heiðarlegur og heilsteyptur einstaklingur, sem kemur vel fyrir, sem við getum verið stolt af sem okkar þjóðhöfðingja. Hann er okkar fulltrúi og kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Frambjóðandinn þarf að hafa brennandi áhuga á landi, þjóð og sögu. Hann þarf að þekkja samfélagið, innviði þess og samsetningu afar vel. Hann þarf að hafa góða þekkingu á íslenskri pólitík og vera vel að sér í alþjóðapólitík. Hann þarf að tala lýtalausa ensku og eitt Norðurlandamál, fleiri lýtalaus tungumál eru kostur. Þarf að geta rætt um menn og málefni á akademískum grunni og samið og flutt ræður og fyrirlestra bæði á íslensku og ensku. Hann þarf að geta flutt óundirbúnar ræður fyrirvaralaust á ensku um alls konara málefni. Túlkar eru afar sjaldan notaðir.
Hann þarf að hafa gott og sterkt bakland, það blæs oft á Bessastöðum. Hann þarf að hafa kjark til að taka mikilvægar og vel ígrundaðar ákvarðanir, jafnvel þó þær séu ekki vinsælar. Hann þarf að hafa tengsl inn í stjórnmálaflokkana, vita alltaf hvernig vindurinn blæs. Hann þarf að vera í góðu sambandi við, og þekkja fólk sem hann kallar til skrafs og ráðagerða, þegar hann undirbýr ræður og ávörp, einnig þegar hann undirbýr opinberar heimsóknir til annarra landa eða heimsóknir til landsins. Hann þarf að þekkja samskipti landanna, bæði í pólitík, viðskiptum, bókmenntum og listum og á akademískum grunni. Oft eru viðskiptasendinefndir í fylgd með forseta og líka vísindamenn úr háskólasamfélaginu, fólk úr menningargeiranum og fl og fl.
Forsetaframbjóðandinn þarf að vera góður stjórnandi og mikilvægt að kunna/læra prótokollinn. Vera kurteis í samskiptum við fólk og geta talað við alla. Kostur er að hafa vit á mat og vínum. Mikil ferðalög fylgja embættinu og gott að hafa staðgóða þekkingu á öðrum menningarsamfélögum. Það sakar ekki að nefna að klæða sig af vandvirkni og vera óaðfinnanlegur.
Góður maki er mikill kostur, auðvitað er forseti Íslands yfirmaður embættisins, en makinn kemur oft að starfi forseta Íslands og tekur virkan þátt í að reka embættið. Það er ekki beint auðvelt að vera með börn á Bessastöðum. Staðurinn er svolítið einangraður og frekar langt að sækja skóla, íþróttir og tómstundastarf þó það hafa breyst hin síðari ár.
Margir eru að spegla sig við embættið þessa dagana og má vera að þessi orð mín gagnist einhverjum,“ segir Vigdís.