Íslandsmet í firringu (án atrennu)

Vitaskuld er nákvæmlega ekkert að því að bæta almenningssamgöngur og vegakerfið almennt, en tilstandið og húllumhæið kringum undirritun uppfærðs samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið í gær, hlýtur að jaðra við Íslandsmetið í firringu, án atrennu.

Sama dag og Seðlabankinn ákvað að halda stýrivöxtum enn óbreyttum í hæstu hæðum, vegna ofþenslu í hagkerfinu og stjórnlauss vaxtar ríkisútgjalda, mætti hálf ríkisstjórnin ásamt bæjarstjórum höfuðborgarsvæðisins og ritaði enn og aftur undir samfelldan loforðalista og viljayfirlýsingar langt inn í framtíðina, sem allir vita að mun í fæstu standast og fara langt umfram allar áætlanir.

Varnaðarorð hafa verið afgreidd sem leiðinda tuð, rétt eins og þegar bent var á að nýr Landpítali færi betur á öðrum stað en aðþrengdur í Þingholtunum, og svo er ætt af stað í ímyndaðri þverpólitískri samstöðu til að gera sem flesta samseka. Þetta heitir að grafa sér sífellt dýpri og dýpri holu.

Forsætisráðherrann sem hafði áður sem fjármálaráðherra lýst áhyggjum af kostnaði við herlegheitin, var aðaltrommarinn að þessu sinni, enda þótt tónlistin væri beint úr smiðju Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og gengur út á að þrengja að einkabílnum og neyða fólk til að taka strætó. Alltaf vaknar hann samt jafn undrandi á að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé á niðurleið. Skilur bara ekkert í því.

Fjármálaráðherrann var alveg úti á túni, enda telur hann í DNA Íslendinga að lifa við háa verðbólgu og okurvexti, og sagði glaðbeittur: „Í dag erum við á rosalega frábærum stað,“ um leið og kostnaðartölur upp á mörg hundruð milljarða voru opinberaðar.

Seðlabankinn hefur beðið ríkisstjórnina að byggja ákvarðanir í ríkisfjármálum á traustari grunni, en innviðaráðherrann Svandís Svavarsdóttir ætlar að nota borgarlínuna og samgöngusáttmálann til að styrkja stöðu sína á vinstri kantinum og sagði plaggið „lifandi reikningsdæmi“. Og bætti við að undirritunin væri „hátíðarstund fyrir lýðræðið.“

Allir vita að ríkisstjórnir framtíðarinnar munu nákvæmlega ekkert gera með slíka viljayfirlýsingu frá óvinsælli ríkisstjórn sem lafir aðeins saman á hræðslu við kosningar og dóm almennings, en sú spurning vaknaði samt yfir fundinum í gær, hvort þessu fólki sé yfirhöfuð viðbjargandi?