Útlendingamálin, að því er varðar hælisleitendur sérstaklega og löggjöf þar að lútandi, er mikið til umræðu þessa dagana og hafa einstakir stjórnmálaflokkar og foringjar þeirra uppfært stefnuna í samræmi við tíðarandann, eins og kunnugt er.
Athygli vekur að Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar og einn helsti ráðgjafi formanns flokksins, ætlar að mæta Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og formanni utanríkismálanefndar Alþingis, á málfundi í vikunni til að ræða þessi mál.
Viðburðurinn er á vegum SUS, Sambands ungra Sjálfstæðismanna, og verður í Petersen-svítunni (Gamla bíó) nk. miðvikudagskvöld kl. 20.
Búast má við fjörugum umræðum, þar sem skiptar skoðanir eru innan Samfylkingarinnar um útspil Kristrúnar Frostadóttur í útlendingamálum, auk þess sem Diljá Mist er í hópi mestu talsmanna róttækra breytinga á löggjöfinni innan Sjálfstæðisflokksins.