Lokið verði við sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka á næstu tveimur árum

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir áframhaldandi sölu á eignarhlut í Íslandsbanka en miðað er við að eftirstandandi hlutur ríkissjóðs verði seldur í jöfnum hlutum á næsta ári og á árinu 2025.

Tekjuáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að heildartekjur verði 1.349 ma.kr., eða 29,8% af vergri landsframleiðslu, VLF. Á tekjuhlið er m.a. gengið út frá forsendum um heildarendurskoðun á skattlagningu öku­tækja og eldsneytis, að farið sé í aukna skattlagningu á ferðaþjónustuna og aukna gjaldtöku af fiskeldi. Þá verði farið í tímabundna hækkun á tekjuskatti lögaðila sem komi til framkvæmda á næsta ári sem skili sér í auknum tekjum á árinu 2025. Loks gerir tekjuáætlun ráð fyrir áfram­haldandi áhrifum ráðstafana sem farið var í á þessu ári, m.a. varaflugvallargjald og breytingar á VSK-endurgreiðslum vegna íbúðarhúsnæðis. Samanlagt er áætlað að framangreindar ráðstaf­anir skili ríkissjóði um 25 ma.kr. í auknar tekjur á næsta ári.

Heildargjöld ríkissjóðs árið 2024 eru áætluð 1.395 ma.kr., eða 30,8% af VLF. Útgjaldahlið ríkissjóðs vex milli ára að nafnvirði en stóran hluta aukningarinnar má rekja til verðlags­breytinga. Þá er á næsta ári gert ráð fyrir 17 ma.kr. ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti sem útfærðar eru í málefnasviðum ráðuneytanna. Þær ráðstafanir felast m.a. í því að draga saman rekstrarframlög og umfangi nýrra verkefna sem fyrirhuguð voru í forsendum fjármála­áætlunarinnar.

Að teknu tilliti til framangreindra ráðstafana er heildarjöfnuður ríkissjóðs áætlaður í halla um 46 ma.kr., eða 1% af VLF á næsta ári, og frumjöfnuður ríkissjóðs er áætlaður jákvæður um rúmlega 28 ma.kr., eða 0,6% af VLF. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs batni verulega frá fjárlögum ársins 2023 en í samanburði við horfur yfirstandandi árs lækkar jöfnuðurinn um tæplega 19 ma.kr. milli ára. Rétt er í því sambandi að vekja athygli á tveimur atriðum sem skekkja þann samanburð milli ára. Annars vegar falla til rúmlega 15 ma.kr. einskiptistekjur á árinu 2023 í tengslum við sölu Landsvirkjunar á Landsneti í lok síðasta árs. Hins vegar er gert ráð fyrir um 68 ma.kr. auknum útgjöldum vegna verðlagsbreytinga á árinu 2024. Þar af eru um 13 ma.kr. sem rekja má til aukinnar verðbólgu á yfirstandandi ári sem gert er ráð fyrir að færist inn í fjárheimildir í fjárlögum 2024 en ekki innan ársins 2023. Ef leiðrétt er fyrir þessum þáttum er frumjöfnuðurinn í reynd að batna um 10 ma.kr. milli ára, eða 0,2% af VLF, segir í fjárlagafrumvarpinu.