Fyrir rúmu ári reit Óli Björn Kárason, þáverandi formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, grein í Morgunblaðið þar sem hann sakaði Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, um að hafa „gert atlögu að samstarfi ríkisstjórnarflokkanna. Og þar með veikt ríkisstjórnina og grafið undan möguleikum hennar til að leysa erfið verkefni á komandi mánuðum.“
Greinin vakti athygli, enda ekki á hverjum degi sem þingflokksformaður stjórnarflokks lætur slík ummæli falla. Svandís Svavarsdóttir hafði þá lagt bann við hvalveiðum með aðeins dagsfyrirvara og mikil óánægja var með ákvörðun hennar í þingflokki sjálfstæðismanna.
Daginn fyrir þingsetningu í fyrrahaust, tilkynnti Óli Björn svo þingmönnum Sjálfstæðisflokksins óvænt að hann vildi hætta sem þingflokksformaður. Viljinn hafði heimildir fyrir því að þrýst hafi verið á hann að endurskoða þessa ákvörðun sína, en hún stóð. Og Hildur Sverrisdóttir tók við formennsku í þingflokknum.
Óli Björn hefur gegnum árin verið ein helsta „samviska“ Sjálfstæðisflokksins og hugmyndafræðingur, eins og regluleg pólitísk skrif hans bera með sér. Hann hefur aldrei opinberlega greint frá ástæðum þess að hann sagði af sér sem þingflokksformaður, en af Moggagrein hans í dag, er ljóst að hann hefur endanlega fengið nóg af samstarfinu við VG. Og kominn tími til.
Ekki afhent einhliða neitunarvald
„Vinstri grænum var ekki afhent einhliða neitunarvald í ríkisstjórn. Heimild til þingrofs er heldur ekki í höndum Svandísar þótt hún hafi stigið fram og boðað til kosninga áður en kjörtímabilinu er lokið,“ segir hann í grein sinni, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að Vinstri græn hafi í reynd bundið enda á stjórnarsamstarfið.
En svo kemur kannski kjarni máls hjá Óla Birni:
„Ég efast ekki um að Vinstri grænir trúi því og treysti að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn láti það yfir sig ganga að minnsti flokkurinn taki þingrofsheimildina af forsætisráðherra og setji samráðherrum sínum stólinn fyrir dyrnar í mikilvægum málum.“
Því ætlar hann sjálfur ekki að una.
„En nú er langlundargeð mitt endanlega þrotið. Framganga Vinstri grænna er með þeim hætti að útilokað er að réttlæta samstarf við þá í ríkisstjórn.“
Óli Björn segir ekki ganga að ríkisstjórn geti aðeins haldið áfram á forsendum minnsta og veikasta stjórnarflokksins. Slík ríkisstjórn nái aldrei árangri og hafi misst erindi sitt.
Hvað ætla aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að gera nú? Og hvenær ætlar forysta flokksins að vakna og viðurkenna staðreyndir, sem hafa blasað við öllum um langt skeið?