Hugvekja dagsins er í boði Ólafs Páls Gunnarssonar, eða Óla Palla á Rás 2, hins geðþekka og landskunna útvarpsmanns, sem býr á Akranesi og fór í bankann í dag. Það gerði honum ekki gott:
„Ég hef verið í bankaviðskiptum við íslandsbanka undanfarin ár. Það er gott útibú á Akranesi og gott starfsfólk sem ég þekki flest með nafni. Ég fór í bankann í dag til að taka út 10.000 krónur. Gjaldkerinn benti mér kurteislega á að það kostaði 300 krónur.
Bankinn geymir launin mín og í raun alla peninga sem ég „á“ á hverjum tíma. Ég lána bankanum peningana mína sem hann lánar áfram með góðum feitum vöxtum á meðan raunvirði peninganna minna rýrnar á reikningnum. Svo er ég rukkaður um 300 kall fyrir að fá aðhentan einn peningaseðil hjá gjaldkera. Íslandsbanki hagnaðist um 24.5 milljarða í fyrra.
Mér verður óglatt,“ skrifar hann á fésbókina.