Miðflokkurinn orðinn þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn

Miðflokkurinn virðist í töluverðri sókn, ef marka má Þjóðarpúls Gallup fyrir októbermánuð. Þar mælist Miðflokkurinn þriðji stærsti stjórnmálaflokkur landsins á eftir Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki.

Miðflokkurinn mælist með 9,4% fylgi og bætir sig frá fyrra mánuði, þar sem fylgið mældist 8,6%. Er þetta besta útkoma flokksins í mælingum Gallup frá því fyrir Covid-faraldurinn.

Tveggja manna þingflokkur þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bergþórs Ólasonar hefur verið mjög atkvæðamikill það sem af er þingvetri og gert harða atlögu að ríkisstjórnarflokkunum. Borgaralegar áherslur flokksins virðast mælast vel fyrir hjá þjóðinni og ef fram heldur sem horfir, mun flokkurinn margfalda þingmannafjölda sinn í næstu kosningum.