Mosfellsbær, Byggingafélagið Bakki og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um byggingu íbúða sem uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán við Huldugötu 2-4 og 6-8 í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ.
Bæjarráð samþykkti að fella burt kvöð um tiltekinn fjölda íbúða fyrir 55 ára og eldri á þessum lóðum og auka þannig möguleika fyrstu kaupenda og efnaminni einstaklinga og fjölskyldna.
Byggingafélagið Bakki skuldbindur sig til að byggja allar 60 íbúðirnar þannig að þær uppfylli skilyrði og reglugerð um hlutdeildarlán og einnig skuldbindur félagið sig til að selja að lágmarki 30 þeirra til einstaklinga sem hafa fengið samþykki fyrir veitingu lánsins. Þá skuldbindur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sig til að gera ráð fyrir úthlutun að lágmarki 30 hlutdeildarlána á umræddum lóðum.
Um er að ræða 2ja og 3ja herbergja íbúðir. Með því að skapa skilyrði fyrir þessum breytingum er Mosfellsbær að auka möguleika fyrstu kaupenda og efnaminni einstaklinga til að komast inn á fasteignamarkaðinn.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Örn Kjærnested framkvæmdastjóri Byggingafélagsins Bakka og Anna Guðmundsdóttir aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.