Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf, segir Vinstri græn hafa endurskilgreint orðin „meðalhóf í stjórnsýslu“ með stjórnsýslu Svandísar Svavarsdóttur í matvælaráðuneytinu og óvæntu banni við hvalveiðum sem sett var á í vikunni, daginn áður en veiðar áttu að hefjast að þessu sinni. Atvinna um tvö hundruð manns er þar með í uppnámi og tekjutap blasir við fyrirtækinu og starfsfólki þess.
Kristján segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að með þessu séu Vinstri græn að prófa sig áfram með það hversu langt þeir geta gengið.
„Ef þetta heldur áfram svona og þeir verða látnir komast upp með það er voðinn vís fyrir atvinnulífið.“
Og hann bætir við:
„Það sem hér er á ferðinni er að öfgafullur kommúnisti stjórnar matvælaráðuneytinu og virðist hata allt nema ríkisrekstur. Hún er greinilega að máta sig við nýja stjórnarhætti. Það er að mínu mati með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skuli hafa afhent henni matvælaráðuneytið.“