Teitur Guðmundsson læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar, sem m.a. rekur heilsugæslustöð í Kópavogi og hjúkrunarheimili á Akureyri, setur fram athyglisverðar hugleiðingar um það sem hann telur skynsamlegt fyrir nýjan heilbrigðisráðherra að gera á fyrstu starfsdögum sínum.
„Mínar pælingar um fyrstu 120 daga heilbrigðisráðherra. Svona fyrir utan daglegt streð og að bæta mönnun og launakjör í kerfinu,“ segir Teitur á fésbókinni og skellir fram svofelldum lista:
1. Breyta lögum og koma stjórn yfir LSH – auglýsa hana og manna – auglýsa svo aftur eftir forstjóra og láta stjórn ráða aðila, enda ekkert vit í að búa til stjórn sem hefur ekki tekið afstöðu til ráðningar forstjóra – öfugsnúið.
2. Breyta rammasamningi um rekstur hjúkrunarheimila, hann er laus núna, hætta greiðslum samkvæmt núverandi plani og leggja upp með greiðslugrunn um húsnæði annarsvegar og svo hins vegar að láta fé fylgja sjúklingi líkt og gert er í heilsugæslu og NPA kerfi. Markaðurinn og aðilar á honum, einka- sjálfseign, og aðrir auk ríkisins munu leysa hratt og örugglega flæðivanda LSH þegar þeir fá tækifæri til þess.
3. Viðbót heilsugæslustöðva skuli vera einkarekin á Akureyri og Suðurnesjum til að skapa aðhald og samkeppni. Möguleiki á einkareknum stöðvum á öllum þéttbýlisstöðum sem ná yfir 20.000 manns. Á höfuðborgarsvæðinu geti þannig verið fjölgun í allt að allt að 24 stöðvar í heild í stað 19 í dag.
4. Leggja drög að heilsugæslusjúkrahúsi á höfuðborgarsvæðinu sem sinnir einfaldari verkum en LSH og vaktþjónustu svæðisins.
5. Skoða breytingu á Læknavakt á höfuðborgarsvæðinu með aðkomu heilsugæslu, LSH og sérgreinalækna (lyf/barna/kven/ortho/rtg). Samningar lausir við flesta þessara aðila og tengja við heilsugæslusjúkrahús.
6. Allt greiðslukerfi sjúklinga verði með sama hætti, að fé fylgi sjúklingi óháð því hvert hann leitar eftir þjónustu og á grunni greininga hans og vandamála. Flestir ef ekki allir sjúklingar metnir reglulega af fjölda aðila sem koma að þeirra málum. Hægt að safna miðlægt saman og meta „þyngd“ þeirra og greiðsluskema.
7. Leggja línur um eitt miðlægt sjúkraskrárkerfi allrar heilbrigðisþjónustu, sameiginlegur lyfjagrunnur og tilvísanagátt. Sameina alla grunna sem eru til í dag.
8. Bæta verulega í hvað varðar forvarnir og heilsueflingu á öllum aldursskeiðum. Skólahjúkrun í leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og háskóla með samræmdri nálgun. Beita skattkerfi í lýðheilsunálgun.
9. Fjarlækningamiðstöð verði komið á miðlægt í samstarfi milli opinberra aðila og einkaaðila.
10. Leggja línur fyrir næstu 120 daga“.