Hætt er við að marga hafi rekið í rogastans, þegar Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði í dag athugun hjá SKEL fjárfestingafélagi á grundvelli ákvörðunar ESA um athugun á starfsemi Lyfjavals ehf. með lögregluaðgerðum og tilheyrandi látum sem fóru ekki framhjá neinum.
Batteríið ESA í Brussel hefur að sönnu slíkar heimildir, en þeim er þó afar sparlega beitt og á hinum Norðurlöndunum hefur það komið til vegna allra stærstu fyrirtækjanna, t.d. símafyrirtækja sem gnæfa yfir aðra á markaði. Þess vegna hlýtur að koma fremur spánskt (eða belgískt) fyrir sjónir að ESA hafi af öllum sínum þunga látið til skarar skríða hér á landi vegna nokkurra lítilla bílaapóteka og þess að einu litlu apóteki hafi verið lokað í verslunarmiðstöðinni Mjódd í Breiðholti.
Um þetta segir nánar í Kauphallartilkynningu frá SKEL:
„Lyfjaval er í eigu Heimkaupa ehf., sem aftur er í 81% eigu SKEL og tengdra félaga. Samkvæmt ákvörðun ESA er athugunin hluti af athugun á mögulegri markaðsskiptingu á smásölumarkaði með lyf. Nánar tiltekið í hefðbundin apótek og bílalúguapótek. Meint markaðsskipting á að hafa falist í því að Lyfjaval lokaði hefðbundnu apóteki í Mjódd og einbeitt sér að því að starfsrækja bílalúguapótek. SKEL hefur áætlað markaðshlutdeild Lyfjavals í kringum 10%.
SKEL eignaðist Lyfjaval að hluta þann 25. júní 2021. Lyfjaval var keypt að fullu þann 29. mars 2023. Félög tengd SKEL eiga og reka 7 apótek, þar af 5 bílalúguapótek. Öll bílalúguapótek eru einnig hefðbundin apótek, þ.e. þar sem gengið er inn. Frá árinu 2022 hafa þrjú ný apótek verið opnuð.
Athugun ESA snýr meðal annars að viðskiptum þegar Lyfjaval seldi verslunarhúsnæði í Mjódd í eigu félagsins til Lyf og heilsu með samningi 26. apríl 2022. Samkeppniseftirlitinu var sérstaklega tilkynnt um þau viðskipti. Samkeppniseftirlitið lauk málinu með ákvörðun nr. 1/2023 þann 2. mars 2023. Málið var kært til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála sem úrskurðaði í málinu þann 9. ágúst 2023.“
Svo mörg voru þau orð. En þegar þau eru lesin betur yfir, verður málið eiginlega bara óskiljanlegra. Hvernig dettur forkólfum ESA í hug að láta algjört smámál verða tilefni fyrstu aðgerðar sinnar á Íslandi?
Getur verið að Árni Páll Árnason, framkvæmdastjóri stofnunarinnar og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sé að taka þátt í einhverjum fjölmiðlaleiðangri íslenskra samkeppnisyfirvalda gegn SKEL, sem stýrt er af bróður utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins? Að þetta hafi verið talinn heppilegur tímapunktur til að komast í umræðuna og koma höggi á fyrirtæki sem lokaði alveg heilu apóteki í Mjóddinni, en hefur aðallega vakið athygli að undanförnu fyrir að koma róti á íslenskan smásölumarkað með innkomu Prís í Kópavogi og lækkað vöruverð í landinu með alvöru samkeppni?
Getur það verið?