Pólitískt meðvitundarlaus ríkisstjórn segir fólkinu í landinu að ástandið sé stöðugt

„Í sumar hefur lítið heyrst frá ríkisstjórninni annað en hávær rifrildi innan úr stjórnarráðinu. Þetta gerist á sama tíma og almenningur glímir við raunverulegan vanda. Vaxtahækkanir og verðbólga rýra ráðstöfunartekjur og óvissan um framhaldið er mikil. Stýrivextir hafa tólffaldast þegar kjörtímabilið er hálfnað. Kjarasamningar eru framundan í viðkvæmu andrúmslofti,“ skrifar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar á fésbókinni.

„Sundruð ríkisstjórn virðist ekki geta starfað eftir skýrri stefnu í þágu almennings. Almenningur er að kalla eftir forystu og stefnu – en ríkisstjórnin ræðir það helst núna að leggja fram vantrauststillögu á sig sjálfa. Ríkisstjórnin er ekki bara stefnulaus í efnahagsmálum. Það er hún í heilbrigðismálum jafnt sem velferðarmálum. Hún er sundruð í löggæslumálum og húsnæðismálum, útlendingamálum sem orkumálum. Raunar í flestum þeim málum sem snerta venjulegt fólk í landinu.

Hún er pólitískt meðvitundarlaus og segir fólkinu í landinu að ástandið sé stöðugt. Það er í sjálfu sér rétt. En það er orðið sjálfsætt vandamál fyrir lífskjör fólks að þannig mun ríkisstjórnin sennilega starfa í heil tvö ár til viðbótar,“ bætir hún við.