Hressandi var að hlýða á svör Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar um skort á hjúkrunarrýmum og möguleikann á samstarfi hins opinbera og einkaaðila í þeim efnum. Allt of lengi hefur tregða og í reynd fordómar Vinstri grænna við fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu tafið margvísleg framfaramál og aukið á vanda sjúklinga og aðstandenda þeirra.
„Það er mitt álit að sú leið sem við höfum farið til þessa, að tryggja framlög á fjárlögum til að vera með opinberar framkvæmdir við byggingar hjúkrunarheimila, hafi í raun og veru runnið sitt skeið og það síðasta sem ég hef haft sérstaka aðkomu að í þessu efni er að mæla hér fyrir fjármálaáætlun sem hefur tryggt verulegt fjármagn. Í fjármálaáætlun sem kom hér fyrir árin 2020–2024 vorum við búin að taka frá 25 milljarða til að byggja hjúkrunarrými. Þessir peningar gengu ekki út og það söfnuðust upp milljarðar á milljarða ofan á milli ára. Þannig að umræðan sem þá gekk á um að það vantaði fjármagn í byggingu hjúkrunarrýma var bara röng. Það er mín skoðun að við eigum að hætta með opinberar áætlanir um það hvernig við byggjum rými og steypum upp hús með ríkissteypu og bara tryggja fólki aðgengi að þessari þjónustu og treysta sjálfseignarstofnunum og öðrum sem eru að veita þessa þjónustu til að gera sínar áætlanir um byggingu mannvirkjanna og við eigum síðan að greiða þeim fyrir það,“ sagði ráðherrann á þingi í gær.
Og hann tók undir með Þorgerði Katrínu að það hljóti að vera algjört forgangsmál hjá okkur að koma í veg fyrir sóun í heilbrigðiskerfinu með því að vera með fólk sem ekki á lengur erindi inn á sjúkrastofnunum þar fast inni. „Það er auðvitað ekkert annað en hrein sóun. Það sem við höfum séð varðandi uppbyggingu hjúkrunarrýma eru dæmi sem við verðum að draga lærdóm af, t.d. má skoða bara fermetraverðið í byggingu hjúkrunarrýma, en þar sem sjálfseignarstofnun byggir á Sléttuvegi er fermetraverðið kannski rétt um helmingurinn af því sem við erum að byggja sjálf í opinberri framkvæmd í Árborg. Þetta eru bara dæmi sem segja sína sögu,“ sagði Bjarni ennfremur og bætti við að hann bindi miklar vonir við samstarf hans og Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um að gerð verði kerfisbreyting í þessum efnum, öllum til heilla.