Ríkisstjórnin í uppnámi og VG lætur Steingrím J. svipast um eftir fylginu

Stjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er í uppnámi nú þegar lokadagar vorþings ganga í hönd. Úrslit forsetakosninganna, afleit niðurstaða í Þjóðarpúlsi Gallup og ósamstaða um lokaafgreiðslu mála á þingi litar andrúmsloftið þar, bæði innan ríkisstjórnarinnar og utan og á samfélagsmiðlum brugðu Vinstri græn á það ráð í gær, að láta stofnandann Steingrím J. Sigfússon, fyrsta formann VG og fv. ráðherra og þingforseta, um að svipast um eftir fylgi flokksins sem virðist fokið út í veður og vind.

Heimildamenn Viljans innan VG ganga ekki svo langt að segja að búið sé að ákveða að slíta stjórnarsamstarfinu, en benda á að ekki sé búið heldur að gefa neina línu um að verja stjórnarmál eða einstaka ráðherra. „Það eru allir hálfdofnir bara og stemningin er ekki mikil. Allir vita að meiriháttar naflaskoðun þarf að eiga sér stað, flokkurinn þarf að kjósa sér nýja forystu til framtíðar og hefja uppbygginguna og leita til upprunans. Er hægt að gera það og vera jafnframt í þessari ríkisstjórn? Það er stóra spurningin,“ sagði áhrifamaður innan flokksins, sem ekki vill láta nafns síns getið.

Við brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur segja margir að límið hafi farið sem hélt ríkisstjórninni saman. Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við formennsku, enda var hann varaformaður, en áhugi er fyrir því innan flokksins að flýta landsfundi og halda hann sem fyrst. Þar er Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra sögð ætla að bjóða sig fram.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson formaður VG.

Í samstarfsflokkunum tveimur er skilningur á því að fólk innan VG sé í sárum, eins og það er orðað, en samt er lögð mikil áhersla á að samningar haldi um afgreiðslu þingmála. Þá er vaxandi pirringur út í matvælaráðherra að fresta og fresta ákvörðun um hvalveiðar og hún sökuð um tafaleiki. Á þingi í morgun, upplýsti Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir að ákvörðun um hvalveiðar á þessari vertíð verði kynnt nk. þriðjudag og að forsvarsmenn Hvals hf. hefðu nú fengið tækifæri til andmæla.

Þau mál sem umdeildust eru innan stjórnarliðsins, en lögð er áhersla á að klára fyrir sumarfrí þingmanna, eru útlendingamálin, ný lög um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, stofnun Mannréttindastofnunar Íslands og stóraukin listamannalaun, svo fáein mál séu nefnd.

Heimildir Viljans herma, að VG hafi gert það að skilyrði, fyrir afgreiðslu útlendingafrumvarpsins út úr þingnefnd á dögunum, að Sjálfstæðisflokkurinn láti af andstöðu sinni við Mannréttindastofnun.