Tilboð Miðflokks og Viðreisnar til Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um stuðning við að koma virkjanaframkvæmdum aftur af stað framhjá andstöðu Vinstri grænna í ríkisstjórninni vöktu mikla athygli á þingi í dag og fóru ekki framhjá þingmönnum Samfylkingarinnar.
Tilhugalíf borgaralegu aflanna varð til þess að Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, kom í pontu og sagði:
„Hér falla pólitískar ástarjátningar frá Miðflokki, Viðreisn og Flokki fólksins líklega. Er ekki bara best, forseti, að gera hlé á þessum þingfundi, kalla forsætisráðherra heim svo að hægri flokkarnir geti sameinast og rætt um þann draum sinn að mynda hér alvöru hægri stjórn, því að mér heyrist það vera tilboðið sem liggur hér í loftinu, eða hvað? Er þá ekki bara best að gera hlé á þessum fundi, slíta þessu stjórnarsamstarfi og leyfa hægri flokkunum að ráða ferð, sjá hvort þeir geti það?“
Formaður flokksins, Kristrún Frostadóttir, er hlynntari virkjunum og orkuframleiðslu en Þórunn og hún var ekki ánægð með málflutning um að Samfylkingin gerði lítið úr ástandinu og bæri ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er.
„Ég ætla nú bara að koma hérna upp í fundarstjórn og bera af okkur í Samfylkingunni þær sakir að við séum að gera lítið úr ástandinu í landinu. Það er alls ekki svo. Það sem Þórunn Sveinbjarnardóttir var einfaldlega að benda á var að það væri ótrúlegt í þeirri stöðu sem upp er komin að fólk taki ekki ábyrgð á ástandinu innan ríkisstjórnarinnar í staðinn fyrir að blaðra um það í fjölmiðlum hversu ómögulegt ástandið er. Það er það sem er verið að benda á í þessum þingsal. Þessi staða sem uppi er í orkumálum í dag er á borði ríkisstjórnarinnar þó að þingið muni að lokum þurfa að koma að því, líklega fyrir áramót, þar sem takmarkaðir hlutir hafa verið gerðir hvað þetta varðar. Samfylkingin tekur þessu bara mjög alvarlega, svo það liggi fyrir,“ sagði hún.