„Matvælaráðherra hefur gert atlögu að samstarfi ríkisstjórnarflokkanna. Og þar með veikt ríkisstjórnina og grafið undan möguleikum hennar til að leysa erfið verkefni á komandi mánuðum,“ sagði Óli Björn Kárason í grein í Morgunblaðinu í byrjun júlí, sem vakti mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem þingflokksformaður stjórnarflokks lætur slík ummæli falla. Svandís Svavarsdóttir hafði þá lagt bann við hvalveiðum með aðeins dagsfyrirvara og mikil óánægja var með ákvörðun hennar í þingflokki sjálfstæðismanna.
Og í dag, daginn fyrir þingsetningu, tilkynnti Óli Björn svo þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að hann vildi hætta sem þingflokksformaður. Viljinn hefur heimildir fyrir því að þrýst hafi verið á hann að endurskoða þessa ákvörðun sína, en hún stóð.
Hildur Sverrisdóttir er nýr formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn er ein helsta „samviska“ Sjálfstæðisflokksins og hugmyndafræðingur, eins og regluleg pólitísk skrif hans bera með sér. Sem almennur þingmaður mun hann geta haldið ríkisstjórninni meira við efnið í ræðu og riti og eytt minni tíma í endalausar samningaviðræður í reykfylltum bakherbergjum við stjórnmálamenn sem hann er ósammála í öllum aðalatriðum.
Enda styttist óðum í kosningar…