Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í morgun að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%, eins og þeir hafa verið í tólf mánuði samfellt og ekkert bendir til þess að vaxtastigið muni lækka umtalsvert á næstunni, enda lifir ríkisstjórnarsamstarfið aðeins á sameiginlegum ótta stjórnarflokkanna þriggja við kosningar og verkleysi og átakanlegur skortur á stefnumótun kemur í veg fyrir að efnahagsmálin þróist með hagfelldari hætti.
„Verðbólga hefur aukist lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar eftir að hafa hjaðnað fram eftir ári. Undirliggjandi verðbólga er enn mikil og verðhækkanir eru á breiðum grunni þótt húsnæðisliðurinn vegi enn þungt. Verðbólguvæntingar hafa einnig lítið breyst og haldist yfir markmiði,“ segir peningastefnunefnd og bendir aðeins á hið augljósa; að enn ætlar ríkisstjórnin aðeins að leysa húsnæðismálin með glærukynningum og viljayfirlýsingum og að stóraukin ríkisútgjöld gera ekkert annað en viðhalda verðbólgu og halda henni hærri en í samanburðarlöndum.
Ekki er að undra, að dr. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, kalli eftir tafarlausum fundi Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar og fái ráðgjöf um hvað ríkið geti gert til að draga úr verðbólgu.
„Það kæmi mér mjög á óvart ef að forystumenn ríkisstjórnarinnar myndu ekki eiga fund með seðlabankastjóra strax í dag til þess að ræða það hvernig hægt sé að bregðast við og grípa til aðgerða til þess að ná betri tökum á efnahagsmálum á Íslandi,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is í dag og segir að Seðlabankinn þurfi að veita ríkisstjórninni leiðsögn.
„Það eru dimm ský á lofti. Við erum að sjá hagvaxtarspána tekna niður, við erum að sjá spár um aukið atvinnuleysi miðað við það sem áður var talið og Seðlabankinn telur að verðbólgan verði þrálátari en áður var talið þrátt fyrir ýmsar aðgerðir,“ bætir Sigurður við.