Segir fréttastofu RÚV ekki starfa á grundvelli hlutlægs fréttamats

Björn Bjarnason, fv. menntamálaráðherra, gagnrýnir Fréttastofu Ríkisútvarpsins harðlega á fésbókinni í dag og sakar hana um að vinna saman með Pírötum að leikþætti og ætlunin sé með því að eitra andrúmsloftið.

Þetta hljóta að teljast þung orð frá fyrrverandi ráðherra, ekki síst þar sem Ríkisútvarpið heyrði undir ráðuneyti hans á sínum tíma.

Tilefni skrifa Björns eru fréttir um óánægju breiðfylkingar verkalýðsfélaga með ummæli utanríkisráðherra í Silfrinu, þar sem hann sagði að efnahagslegar afleiðingar hamfaranna í Grindavík hljóti að hafa áhrif á getu ríkisstjórnarinnar og ríkissjóðs til að koma með útspil í tengslum við gerð kjarasamninga.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði á þingi í dag, hvort ætlun ráðherrans hefði með þessu verið að koma kjaraviðræðum í uppnám.

Færsla Björns er svohljóðandi:

„Fréttastofa RÚV bjó það til með spurningu til Ragnars Þórs Ingólfssonar að Bjarni Benediktsson hefði hleypt illu blóði í kjaraviðræðurnar með ummælum í Silfrinu. Hvorki Sólveig Anna í Eflingu né Vilhjálmur Birgisson í Starfsgreinasambandinu tóku undir með fréttamanninum eða Ragnari Þór þegar Morgunblaðið ræddi við þau. Þórhildur Sunna, leiðtogi Pírata, greip hins vegar bolta fréttasofunnar á lofti og komst í fyrstu frétt fyrir vikið. Leikflétta fréttastofu og pírata er gamalkunn, henni er ætlað að eitra andrúmsloftið. Vegna þess að fréttastofan starfar ekki á grundvelli hlutlægs fréttamats getur svona bolti rúllað lengi.“

Björn Bjarnason, fv. ráðherra.