„Forseti. Góðir landsmenn. Við erum hér saman komin í kvöld til að minnast ríkisstjórnarinnar [Hlátur í þingsal.] eða stjórnarmeirihlutans sem við höfum setið uppi með núna í hátt í sjö ár. Þótt við kveðjum ekki þessa ríkisstjórn með söknuði þá tel ég tilefni til að rifja upp afrek hennar eða sögu, annars vegar sem aðvörun en einnig sem hvatningu til að minna á að hlutirnir geta gengið miklu betur ef menn taka skynsamlegar ákvarðanir,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra á Alþingi í gær við eldhúsdagsumræður.
Og svo tók hann til við að minnast afreka ríkisstjórnarinnar:
„Ríkisstjórnin afrekaði það næstum því að tvöfalda ríkisútgjöld í sinni tíð á innan við sjö árum. Hún afrekaði það líka fyrir vikið að auka mjög verulega á verðbólgu enda gat ekki annað gerst við þessar aðstæður. Þrátt fyrir það tókst einni ríkisstjórn, einu stjórnarsamstarfi, að auka útgjöld íslenska ríkisins um yfir 40% að raunvirði.
En stóra spurningin er þessi: Hvað fengum við fyrir það? Það veit enginn. Fræðimenn framtíðarinnar munu eflaust reyna að rannsaka það en það verður erfitt. Varð heilbrigðiskerfið betra eða menntakerfið? Var gert upp við eldri borgara eða öryrkja? Var komið til móts við bændur, grundvallarstétt landsins frá landnámi? Nei. Var löggæslan styrkt? Nei. Enginn veit hvað varð um peningana. En metin voru slegin hér á landi og þótt víðar væri leitað og samfélagið breyttist.
Samfélagið er breytt eftir tíð þessa stjórnarsamstarfs. Erlendum ríkisborgurum fjölgaði það mikið að fjöldi þeirra meira en tvöfaldaðist í tíð einnar ríkisstjórnar, meira en tvöfaldaðist án þess að gerðar væru nokkrar þær ráðstafanir sem hefði þurft til að bregðast við þeirri þróun. Ísland komst rækilega á kortið sem áfangastaður hælisleitenda, svo rækilega að tuttugufalt fleiri hlutfallslega mættu til Íslands til að sækja um hæli heldur en til Danmerkur. Í ágætri ræðu hæstv. dómsmálaráðherra hérna áðan, einni bestu ræðu sem ég hef heyrt stjórnarliða flytja á þessu ári, sagði ráðherrann að þetta væri áhyggjuefni. Ég tek svo sannarlega undir það, en orð hafa reynst ódýr í þessum málaflokki hjá Sjálfstæðisflokknum, flokknum sem lagði til útlendingalögin sem allt þetta byggir á, og hjá þessari ríkisstjórn af því að ekki er brugðist við eðli og rót vandans.“
Ég hugsa að meira en helmingurinn hafi verið kominn aftur til landsins áður en lögreglan náði að skila sér hingað til baka.
„Svo birtast fréttir og hæstv. ráðherra sagði okkur hérna áðan að það hefði dregið mjög verulega úr umsóknum um hæli á Íslandi. En hvers vegna var það? Það er vegna þess að hælisleitendur frá Venesúela hættu að koma vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar. Ef Útlendingastofnun ákveður á grundvelli laganna að breyta skilgreiningu sinni á einhverju landi úti í heimi þá getur þetta allt farið í sama far aftur. Og jú, ég sá að það hafði þrefaldast fjöldi þeirra sem voru sendir úr landi í fyrra. Hversu margir voru þeir? 47.
Ég hugsa að meira en helmingurinn hafi verið kominn aftur til landsins áður en lögreglan náði að skila sér hingað til baka. Það er ekki verið að taka á þessum málum. Það er samt ánægjulegt að heyra hvernig hæstv. ráðherra talar en það mun engu breyta í þessu stjórnarsamstarfi varðandi þetta mál eða önnur mál.
ESB reglugerðir fleiri en hólarnir í Vatnsdal
Stjórnleysi er það sem hefur einkennt þessa fráfarandi ríkisstjórn á öllum sviðum en á meðan hefur Evrópusambandið auðvitað fengið að senda okkur blýfylltu reglugerðirnar sínar á færibandi. Ég efast um að nokkur ráðherra hafi hugmynd um hversu margar slíkar reglugerðir hafa verið keyrðar hér í gegn og líklega eru þær eins og hólarnir í Vatnsdal, fleiri en hægt er að telja. Þetta hefur afleiðingar. Við missum smátt og smátt stjórn á landinu. Almenningur og kjósendur missa stjórn á landinu jafnt og þétt en verða í staðinn þrælar skrifræðisins og kerfisins. Nú er okkur ætlað að fylla mjög reglulega út skýrslu um það hversu mikið við höfum keyrt þann daginn eða þann mánuðinn. Það er ekki enn farið að skipa okkur að útlista hvert við fórum og í hvaða tilgangi en vitið til, með sama áframhaldi er það ekkert útilokað.
Þessi ríkisstjórn hefur líka haldið áfram að stækka báknið. Nú stendur víst til, er það ekki rétt, herra forseti, að stofna enn eina stofnunina, mannréttindastofnun, líklega þá fimmtu eða sjöttu í röðinni. Þessi átti að hafa það hlutverk, ef þið munið, að halda utan um námskeiðin sem allir landsmenn frá leikskólabörnum að tíræðu fólki á öldrunarheimili áttu að fara á til að læra að hugsa og tjá sig. Það datt upp fyrir eftir að þingflokkur Miðflokksins þvældist aðeins fyrir því máli en stofnunina á að stofna, mannréttindastofnun, eina stofnunina enn. Þannig vex báknið jafnt og þétt og um leið reyna stjórnvöld að ná meira taki, meiri tökum á almenningi í landinu, meira að segja tungumálinu.
Lög um stöðu leghafa
Ég veit ekki hvort virðulegur forseti man eftir því þegar þessi ríkisstjórn innleiddi lög um stöðu leghafa. Leghafar, herra forseti, eru það sem við kölluðum konur en þessi ríkisstjórn kýs að kalla leghafa. Hún hefur reynt að ganga í endurnýjun lífdaga, finna erindi sitt og fór í uppfærslu. Við fengum nýjan forsætisráðherra sem kynnti okkur þrjú megináhersluatriði þessarar ríkisstjórnar: útlendingamál, sem hæstv. dómsmálaráðherra reynir enn að tala fyrir og fær að því er virðist takmarkaðan hljómgrunn í samstarfinu, orkumál og ríkisfjármálin eða efnahagsmálin. Ég held að dagurinn hafi ekki verið liðinn, a.m.k. ekki næsti dagur, áður en samstarfsmenn hins nýja forsætisráðherra voru búnir að útlista það að þeir hefðu engan áhuga á að fylgja eftir þessum helstu áhersluatriðum nýja forsætisráðherrans. Og nú kýta þingmenn stjórnarmeirihlutans og ráðherrar sín á milli og það meira að segja í opinberum gögnum.
Fyrirskipuð rannsókn á lögreglunni
Hæstv. félagsmálaráðherra fékk að stýra ríkisstjórnarfundi nýverið. Hann notaði tækifærið til að skipa forsætisráðuneytinu fyrir um að hefja rannsókn á lögreglunni. Það er ekki hans erindi í því hlutverki, ekki erindi ráðuneytisins heldur dómsmálaráðuneytisins frekar. Svo gerðist það bara í dag eða í gær að hæstv. heilbrigðisráðherra sendi erindi á flokksbróður sinn fjármálaráðherra og bað hann að gera eitthvað í máli sem ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt í í sjö ár, sem er sala á áfengi með ýmsum hætti. Ráðherra fjármála brást þannig við að hann sendi lögreglunni erindi og sigaði henni á þá sem væru að fylgja hinum óljósu lögum. Núna rétt áðan kom tilkynning á vef dómsmálaráðuneytisins frá hæstv. dómsmálaráðherra þar sem það var útlistað að afstaða fjármálaráðherrans væri í rauninni hættuleg, það komst nálægt því að hæstv. fjármálaráðherra væri kallaður ógn við réttaröryggið. Þetta er nú staðan á þessu ríkisstjórnarsamstarfi, herra forseti.
Ég sé að ræðutími minn er að klárast en tími þessarar ríkisstjórnar er búinn,“ sagði Sigmundur Davíð.