„Loksins!“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, en hann á hugleiðingu dagsins á þá miklu viðhorfsbreytingu sem virðist vera að eiga sér stað í stjórnmálunum þegar kemur að umræðum um hælisleitendur og þá löggjöf sem gildir hér á landi um þau efni. Viljinn hefur meðal annars skýrt frá breyttum áherslum Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, sem sæta miklum tíðindum.
Sigmundur Davíð bendir á, að árum saman hafi þingmenn Miðflokksins varað við vandamálum og kostnaði við stjórnlausa móttöku hælisleitenda, enda oft verið mjög óvarlega farið.
„Aðrir flokkar hafa flestir látið varnaðarorð sem vind um eyru þjóta eða jafnvel ráðist á þá sem viðhöfðu varnaðarorðin. Framganga sumra fjölmiðla kynti þar undir.
Nú virðast stjórnmálamenn margra flokka vera að átta sig á vandanum (sem þó hefur lengi verið augljós). Það er ánægjulegt.
En munið að þeir sem segja hluti bara til að afla sér fylgis eru ólíklegir til að framkvæma þá, ólíkt þeim sem þora að sigla gegn straumnum og þola ágjöf af því þeir trúa því að það eigi að berjast fyrir því sem er rétt.
Það skiptir máli að vita að árangur næst ef menn gefast ekki upp á skynsamlegum málstað,“ bætir hann við.