Sjálfstæðisflokkurinn þarf skýra sýn og nútímalegt flokksstarf

Fjölmenni sótti fundinn í Reykjanesbæ.

Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að endurnýja hugmyndafræðilegt erindi sitt á grundvelli grunngilda flokksins um jöfn tækifæri og frelsi einstaklingsins, var meðal þess sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði á fjölsóttum fundi sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ á Kaffi Duus um liðna helgi.

Á brattann hefur verið að sækja hjá Sjálfstæðisflokknum í skoðanakönnunum að undanförnu og deilur staðið í stjórnarsamstarfinu. Áslaug Arna kvaðst á fundinum sannfærð um möguleika flokksins til sóknar á nýjan leik. Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að ná eyrum fólks, það væri ekki gert með því að tala niður fólk eða takast á fyrir opnum tjöldum.

Nú þyrfti að vinna saman í því að ná til borgaralega þenkjandi fólks í samfélaginu með skýrri sýn og nútímalegu flokksstarfi. Fólk hefði áhuga á að fylkja sér með stjórnmálaafli sem talar samfélagið upp og hefur skýra sýn til framtíðar á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar.

Áslaug Arna sagði ennfremur, að flokkurinn þyrfti að vera óhræddur að hugsa hluti upp á nýtt þegar kemur að flokksstarfi. Svörin sé ekki alltaf að finna í fortíðinni þó grunnstefnan og gildin séu þau sömu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ræðir við fundarmenn.