Sjávarsundlaug, hugleiðsluhús, sjónaukar fyrir selaskoðun og gufubað í Nauthólsvík eru meðal hugmynda sem settar eru fram í nýrri skýrslu starfshóps um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík. Í skýrslunni eru dregin fram fjölmörg sóknarfæri með það að markmiði að auka lífsgæði borgarbúa og stuðla að bættri lýðheilsu. Skoðað verður að koma fyrir Parísarhjóli á Miðbakka á vegum einkaaðila, eins og Viljinn hefur skýrt frá.
„Um aldamótin hreinsaði Reykjavík strendur sínar með nýju fráveitukerfi og opnuð var sjósunds-og strandaðstaða í Nauthólsvík. Síðan hafa borgarbúar kynnst sjónum upp á nýtt og sjósund, sjóböð og margs konar sjó- og vatnasport hefur vaxið gríðarlega í vinsældum. Helmingur íbúa Reykjavíkur býr í minna en eins kílómetra göngufjarlægð frá strandlengjunni og býður hún upp á mikilvæg tækifæri til afþreyingar. Þekkt er að aðgengi að vatni, eða bláum svæðum, hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu og stuðlar að hamingju og vellíðan. Auk þess benda rannsóknir til þess að aðgengi að strandlengju ýti verulega undir hreyfingu,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Starfshópi um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík var falið að skilgreina tækifæri borgarinnar til aukinnar uppbyggingar á haftengdri upplifun og útivist við strandlengjuna í borginni. Starfshópurinn hefur nú gefið út skýrslu þar sem lögð eru til 11 svæði fyrir haftengda upplifun og útivist í Reykjavík eftir viðamikið samtal við hagaðila innan og utan borgarkerfisins. Svæðin eru Nauthólsvík, Nýi Skerjafjörður, Ægisíða, Laugarnes, Bryggjuhverfi vestur, bryggjuhverfi við Grafarvog, Viðey, Gufunes, Gorvík og Blikastaðakró ásamt Kjalarnesi. Lögð var sérstök áhersla á aðgengismál við vinnuna með það í huga að tryggja aðgengi fyrir öll.
Allar tillögurnar framkvæmanlegar
Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður, er formaður starfshópsins. „Borgin okkar er á heimsmælikvarða og við eigum að geta boðið upp á sömu tækifæri og til dæmis aðrar skandinavískar borgir þar sem mikil uppbygging er við hafsvæðin sem hvetur bæði til leiks og dvalar,“ segir hún. „Það hefur verið sýnt fram á að gott aðgengi að svona svæðum eykur velferð og í hröðum lífstakti eins og algengur er hjá Íslendingum er mikilvægt að huga að andlegri og líkamlegri heilsu.“
Rebekka segir margt spennandi í tillögunum. „Eftir að hafa búið erlendis og kynnst menningu við hafið er ég virkilega spennt fyrir að bjóða upp á fjölbreyttari upplifun við hafið. Þar stendur fljótandi gufubað upp úr og býður Bryggjuhverfið við Grafarvog upp á einstaka staðsetningu fyrir það. Önnur verkefni eins og aðstaða fyrir fuglaskoðun, svæði fyrir hugleiðslu og bætt aðstaða fyrir kennslu, hvort sem er í náttúrufræði eða við siglingar, stendur einnig upp úr.“
Að mati Rebekku eru allar tillögur skýrslunnar framkvæmanlegar og margar án mikils tilkostnaðar. „Mörg svæðanna þarfnast endurhugsunar á heildarskipulagi og það er von mín að við fylgjum eftir Græna planinu og Aðalskipulagi Reykjavíkur, leggjum metnað í að efla hafsvæðið okkar og gera borgina okkar að enn meiri lífsgæðaborg en hún er.“
Sviðsmynd af mögulegu hugleiðsluhúsi á Laugarnestanga.