Stefán Einar: Rangar fréttir risamiðla hrintu nánast af stað þriðju heimsstyrjöldinni

Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðingur og fjölmiðlamaður.

„Það er komið í ljós að allt sem fullyrt var um atburðina við sjúkrahúsið á Gasa var rangt. Allir risamiðlarnir löptu upp lygina frá hryðjuverkasamtökum (og kölluðu þau reyndar heilbrigðisyfirvöld),“ segir Stefán Einar Stefánsson, siðfræðingur og blaðamaður í snarpri færslu á fésbókinni, þar sem hann segir að rangar fréttir af þessum atburði hafi farið nálægt því að hrinda af stað þriðju heimsstyrjöldinni.

Stefán Einar skrifar:

„Staðreyndirnar eru þessar:

* Spítalinn var ekki sprengdur upp heldur bílar á bílastæðinu við hlið hans.

* Sprengjan var ekki af völdum árásarliðs Ísraelsmanna heldur vegna bilunar í eldflaug sem Islamic Jihad skaut á loft úr kirkjugarði í nágrenni við spítalann. Hún féll til jarðar með skelfilegum afleiðingum.

* Sprengjan var ein af tugum slíkra sem skotið var á loft af sama tilefni. Þeim var ætlað að hæfa skotmörk í Jerúsalem og stráfella saklausa borgara.

* Strax var fullyrt í öllum fjölmiðlum að 500 manns væru látin eftir árás Ísraela. Nú segja sérfræðingar að mannfallið liggi á bilinu 10-300 og miðað við myndefni sem birtist eftir að daga tók að nýju bendir til þess að fjöldinn sé nær neðri mörkunum en þeim efri.

* Þetta staðfesta ekki aðeins ljósmyndir sem sýna t.d. mjög lítinn gíg eftir sprenjuna. Hann er grunnur og þvermál hans lítið. Sprengjur Ísraela skilja yfirleitt eftir sig 8-9 metra breiða og afar djúpa gíga.

* Ábyrgð þeirra fjölmiðla sem kokgleyptu við lyginni, og þora vart að draga í land úr þessu, er mikil. Eins þeirra sem færðust allir í aukana við tíðindin og töldu að þarna væri tækifæri komið til þess að snúa baráttunni Hamas-liðunum í hag!

* Af hverju? Vegna þess að þessi skelfilegi atburður, sem er allur á ábyrgð hryðjuverkamannanna innan Gasa-svæðisins, varð nánast til þess að hrinda af stað þriðju heimstyrjöldinni. Múslimaheimurinn ærðist, afboðaði alla fundi með forseta Bandaríkjanna og áhlaup var gert á sendiskrifstofur og sendiráð Bandaríkjanna og Ísraels víða um heim.

* Skömm þeirra sem leggja aðgerðir Ísraela og Hamas að jöfnu, er mikil. Hvor ber siðferðislega ábyrgð á mannfallinu, sá sem snýst til varnar þegar þjóðarmorð er framið, og reynir að ná til illvirkjanna, eða illvirkjarnir sjálfir sem draga börn sín og konur úr öruggum fylgsnum og stilla þeim upp á milli sín og þeirra sem verja hendur sínar (og eðlilega af alefli).

* Ágætur drengur orðaði þetta vel í viðtali við BBC í gær. „Ef þeir leggja niður vopn (Hamas) þá verður friður. Ef við leggjum niður vopn, verðum við drepin.“

* Sagan sem fólk er ekki reiðubúið að horfast í augu við að harkan sem Ísraelar hafa beitt síðustu áratugi í samskiptum við nágranna sína, og landtakan (sem í mörgum tilvikum er óréttlætanleg en í öðrum í lagi þar sem hún snýst um varnarhagsmuni) er til komin vegna þess að rétt eins og í helförinni, og raunar á öllum öldum í 800 ár, hefur tilvist þessa fólks verið ógnað. Pogrom er orð sem fólk ætti að kynna sér vel, áður en það tekur sér stöðu Hamas-megin á víglínunni.“