Stjórnarflokkarnir bakka með stór mál enn og aftur vegna innbyrðis ágreinings

Alþingishúsið við Austurvöll / Bragi Þór Jósefsson fyrir Alþingi.

Þinglokasamningar náðust á fundi formanna allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi laust fyrir miðnætti í gær, segir í yfirlýsingu sem stjórnarandstöðuflokkarnir sendu frá sér í morgun. Þar segir að stærstu tíðindin séu þau að ríkisstjórnin fallist á sameiginlegar breytingartillögur allra flokka í stjórnarandstöðu við örorkufrumvarp félagsmálaráðherra. Stjórnarmeirihlutinn stefni að afgreiðslu lögreglulaga og frumvarps um stofnun Mannréttindastofnunar en frumvarpi um slit ÍL-sjóðs verði frestað að kröfu stjórnarandstöðu.

Frumvörpum um lagareldi og breytingar á sóttvarnarlögum verður einnig frestað auk frumvarpa um vindorku og raforkulög þar sem stjórnarflokkarnir náðu ekki saman. Þá má nefna að kröfu Flokks fólksins verða engar breytingar gerðar varðandi nýtingu persónuafsláttar eldra fólks sem er búsett erlendis nema að undangenginni athugun efnahags- og viðskiptanefndar.

Stjórnarandstaðan gekk sameinuð til þinglokasamninga og fagnar árangri þeirra. Þar muni mestu um að sameiginlegum lágmarkskröfum stjórnarandstöðu um breytingar á örorkufrumvarpi verður mætt að verulegu leyti.

Stjórnarandstaðan harmar að samgönguáætlun hafi ekki verið kláruð vegna innbyrðis óeiningar hjá ríkisstjórnarflokkunum.