Stóra próf Samfylkingar

Eftir Hildi Sverrisdóttur:

Í pólitík skiptast á skin og skúrir og sælt er á stundum að vera ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Það getur eflaust verið þægilegt að velja sér fáein umræðuefni og útiloka önnur sem eru erfiðari viðfangs, en í raunheimum þurfa leiðtogar að taka ákvarðanir alla daga. Sumar eru til vinsælda fallnar, aðrar síður eins og gengur, en þær þarf samt að taka.

Eftir margra mánaða þögn um eitt erfiðasta mál samtímans, rauf formaður Samfylkingarinnar þögn sína um hælisleitendamál á dögunum og samstundis fór allt á annan endann í flokki hennar, enda um algjöra kúvendingu að ræða frá því sem við þingmenn annarra flokka höfum heyrt af vörum samfylkingarfólks undanfarin ár.

Áfallateymi flokksins fór strax af stað til að útskýra að stefnubreytingin hefði alls ekki verið nein stefnubreyting og það þurfti hvorki meira né minna en tvo fyrrverandi formenn flokksins til að kveikja á kertum og spila róandi tónlist fyrir grasrótina.

Útlendingafrumvarp rætt í dag

Það hlýtur þess vegna að vera fagnaðarefni að Samfylkingin geti strax mátað sýn sína á útlendingamálin í dag þegar Alþingi tekur fyrir nýtt frumvarp dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til breytinga á lögum um útlendinga. Frumvarp sem felur í sér að afnema séríslenskar reglur og færa nær regluverki Norðurlandanna með það að markmiði að fækka umsóknum þeirra sem ekki uppfylla skilyrði um alþjóðlega vernd.

Þótt breytingarnar sem í frumvarpinu felast séu ekki nýjar af nálinni hefur engu að síður liðkast nokkuð óvænt og ánægjulega fyrir málinu með þessum skyndilega liðsauka úr herbúðum Samfylkingarinnar.

Því varla getur verið að Kristrún Frostadóttir hafi upp úr eins manns hljóði talað fyrir stefnu sem er allt önnur en þingflokkur hennar fylgir á þingi?

Fróðlegt verður þess vegna að fylgjast með því hvort formaðurinn fær fleiri flokksmenn en forvera sína á formannsstólnum til lags við sig. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur hingað til ekki bara tekið fyrir þær nauðsynlegu breytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað lagt til á málaflokknum, heldur hafnað þeim með mjög afgerandi hætti og brigslað stuðningsmönnum breytinganna um að verða helst minnst af þingferlinum fyrir dusilmennsku og vondan hug.

Ráð að heyra í enn einum forveranum

Breytingarnar sem dómsmálaráðherra boðar nú eru efnislega þær sömu og hafa verið lagðar fyrir þingið reglulega á undanförnum árum. Þess vegna verður það prófsteinn á formann Samfylkingarinnar og flokkinn í heild sinni, þegar til umræðu og atkvæðagreiðslu um málið kemur.

Afstöðuleysi í stóru málunum kann að slá pólítískar keilur til skamms tíma, en í raunheimum þurfa alvöru stjórnmálaleiðtogar að hafa sýn og bjóða upp á alvöru lausnir.

Stóra prófið er því framundan og undirbúningur stendur því líklega sem hæst við Hallveigarstíg. Ráð gæti verið að heyra í enn einum forveranum á formannsstóli, en sú var víst sérfræðingur í að smala köttum. Það gæti komið sér vel nú.

Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.