Það er eitthvað mikið að í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, eins og sést glögglega í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup fyrir desember sem Ríkisútvarpið sagði frá í dag. Aldrei áður í sögunni hefur fylgi flokksins mælst eins lítið, ekki einu sinni þegar efnahags- og fjármálakerfið hrundi síðla árs 2008.
Mælingin nú er í takt við kannanir undanfarna mánuði og misseri og staðfestir megna óánægju kjósenda Sjálfstæðisflokksins með framgöngu flokksins í stjórnarsamstarfinu með Vinstri grænum og Framsóknarflokki. Engin stemning er lengur með ríkisstjórnina hjá fólkinu í landinu og ekkert gengur undan henni á þingi. Svo átakanlegt er verkleysi hennar, að Jón Gunnarsson fyrrverandi ráðherra í þessari ríkisstjórn hefur lýst því yfir hér á Viljanum og víðar, að henni sé ekki treystandi til að klára þjóðhagslega mikilvæg mál og hún eigi ekkert erindi lengur.
Vinstri græn eru samkvæmt skoðanakönnunum við það að falla af þingi, flokkur sjálfs forsætisráðherrans. Samt er það stefna VG sem ræður helst í stjórnarsamstarfinu eins og birst hefur greinilega í orku- og virkjanamálum. „Tafapólitík“ kallaði Jón Gunnarsson það réttilega.
Spurningin er: Hafa sjálfstæðismenn kjark og þor til að snúa taflinu við, eða ætla þeir að fljótandi áfram sofandi að feigðarósi? Það blasir við öllum að keisarinn er ekki í neinum fötum og ef eina markmið Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar er að halda völdum, valdanna vegna, þá mun það að líkindum enda með ósköpum fyrir flokkana þrjá þegar kemur að kosningum.
Sjálfsagt vonast Samfylkingin og Miðflokkurinn til þess að ríkisstjórnin hangi saman sem lengst og stjórnarflokkunum haldi áfram að blæða út, hægt og rólega. En það getur varla verið planið í Valhöll, er það?