Alþingi samþykkti fyrir þingfrestun í gær frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um einfaldara og réttlátara örorkulífeyriskerfi. Mikil samstaða var meðal þingmanna í stjórn og stjórnarandstöðu um afgreiðslu málsins og var m.a. fallist á ýmsar breytingartillögur frá sameinaðri stjórnarandstöðu í málinu.
Breytingarnar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.
„Í dag urðu þáttaskil. Ákall hefur verið eftir því í ár og áratugi að kerfinu yrði breytt og það gerðist í dag. Til hamingju við öll og til hamingju Ísland,“ segir Guðmundur Ingi.
„Með breytingunum tökum við betur utan um fólk en áður og búum til hvata til að gera því kleift að blómstra. Grunnhugsunin er sú að við séum öll með og skiptum öll máli. Áherslan í nýja kerfinu er á að draga úr hindrunum og aðstoða fólk sem vill og getur stundað atvinnu að gera það – en ekki síður að halda utan um þau sem ekki taka þátt á vinnumarkaði,“ bætir hann við.
Alls munu 95% örorkulífeyrisþega fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Nýja kerfið tekur gildi þann 1. september 2025 enda viðamikill undirbúningur sem þarf að eiga sér stað áður til að tryggja hnökralaus skipti á milli greiðslukerfa.
- Sjá vef um breytingarnar: Öll með: Breytingar á örorkulífeyriskerfinu