„Þögla kreppan læðist hægt og rólega yfir hagkerfið. Hægt og bítandi kælir hún hagkerfið án þess að menn taki eftir því. Þetta minnir eilítið á árið 2007. Þá tók enginn eftir því að kreppan væri að læða sér yfir hagkerfi heimsins fyrir en allt helfraus allt í október 2008. Það eru engar líkur á að kreppan sem læðist að okkur núna verði eins rosaleg og fyrir 15 árum síðan,“ segir Jón Þorbjörnsson á fésbókinni, en hann hittir oft naglann á höfuðið þegar kemur að umræðum um viðskiptalífið.
Sagt er að íslenskt viðskiptalíf hafi nánast fengið taugaáfall í gær, þegar fregnir bárust af því að veðkall hefði verið gert í bréfum forstjóra Marel sem sagði fyrir vikið upp störfum. Til að bæta gráu ofan á svart, hefur Árni Oddur Þórðarson nú fengið greiðslustöðvun, sem sýnir aðra fjárhagsstöðu eins helsta toppsins í íslensku viðskiptalífinu en flesta óraði fyrir.
„Allir markaðir eru að kólna og margir eru að tapa peningum núna en engin meiriháttar gjaldþrot hafa átt sér stað. Veðköll eru byrjuð og hlutabréfavístitalan er í rusli og hagnaður fyrirtækja að minnka. Það er kominn hrollur í marga en menn vona að við fáum mjúka lendingu svo hagkerfið geti tekið flugið.
Ennþá eru byggingakranarnir í gangi og ferðamenn streyma til landsins og ennþá er skortur á vinnuafli. Þögla kreppan er lúmsk og lævís,“ bætir Jón við.
Sagt er að fundað sé fram á nótt í helstu fjármálastofnunum landsins og stefnuvottar og starfsfólk fullnustudeilda eigi von á snarauknum verkefnum. Næstu dagar verða athyglisverðir…
Ertu með athugasemd eða ábendingu fyrir Kallinn um efni sem gæti átt erindi við almenning? Sendu póst á viljinn@viljinn.is, fyllsta trúnaðar heitið.