Tvö ár frá innrásinni: Diljá Mist gat ekki annað en tárast í þinghúsinu í Kænugarði

Diljá Mist með Maria Mezentseva, þingkonu frá Úkraínu.

„Ég gat ekki annað en tárast í úkraínska þinginu í dag, þegar tvö ár voru liðin frá allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við Viljann frá Kænugarði í Úkraínu, þar sem hún er stödd ásamt formönnum fleiri utanríkismálanefnda evrópskra þjóðþinga.

„Þvílíkar tilfinningar, stolt og baráttuþrek sem við skynjuðum. Alls staðar þar sem við komum í Úkraínu þakkar fólk okkur fyrir, hvort sem það eru fótalausir hermenn eða forseti þingsins,“ bætir hún við.

Formennirnir héldu með lest inn í Úkraínu frá Póllandi og var uppálagt að tjá sig ekki um ferðalagið, fyrr en komið væri á áfangastað. Eins og Viljinn skýrði frá fyrr í dag, samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í gær, þingsályktunartillögu að stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024 til 2028. Með henni verður fest í sessi áætlun um áframhaldandi stuðning Íslands við úkraínsku þjóðina í baráttu sinni við innrásarlið Rússa auk endurreisnar og uppbyggingar innviða í landinu.

Þingsályktunin verður nánar unnin í samráði við utanríkismálanefnd og kynnt í framhaldinu, en gert er ráð fyrir að framlög ársins 2024 verði aukin frá fyrra ári og heildarframlög íslenskra stjórnvalda vegna Úkraínu verði sambærileg stuðningi Norðurlandanna. Þá verði tekin ákvörðun um heildarframlög til Úkraínu í tengslum við fjárlög ár hvert, en lágmarksfjárhæð tryggð til næstu ára. 

Diljá Mist ásamt Marko Mikhelson, formanni utanríkismálanefndar eistneska þingsins.