Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson:
Í 71. gr. stjórnarskrár er kveðið á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Með vísun til þessa ákvæðis tel ég stjórnvöldum óheimilt að meina mönnum að fara til heimila sinna og starfsstöðva nema að lágmarki sé sýnt fram á að öðrum mönnum stafi hætta af för þeirra þangað. Líklega halda stjórnvöldin því ekki einu sinni fram að slík hætta stafi af heimför þeirra sem eiga heimili í Grindavík. Ákvæðin í 3. mgr 71. gr. stjórnarskrár um að takmarka megi friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu eru bundin við að ógnað sé réttindum annarra. Stjórnvöldin hafa bannað fólki sem býr í Grindavík för þangað og munu þau styðja bannið við 23. og 24. gr laga nr. 82/2008 um almannavarnir. Þetta bann hlýtur að byggjast á þörf til að vernda íbúana fyrir sjálfum sér. Til þess hafa stjórnvöldin ekki heimild ef á annað borð verður talið, eins og hér á landi, að borgarar búi almennt við persónulegt frelsi. Telja verður að heimildir laga um almannavarnir hljóti að víkja fyrir ákvæðum stjórnarskrár. Persónulegt frelsi eigendanna heimili þeim m.a. að stofna sjálfum sér í hættu ef einhver hætta er ferðinni á annað borð. Benda má á til skýringar að ekkert í settum lögum bannar mönnum t.d. að svipta sjálfa sig lífi ef því er að skipta og ekki verður mönnum refsað fyrir þann gjörning.
Íbúum í Grindavík er kunnugt um þær hættur sem stjórnvöld kveðast telja að séu til staðar þar. Fari þeir þangað er þeim því ljóst að þeir bera sjálfir ábyrgð á för sinni.
Það er m.ö.o. ekki hér á landi til að dreifa almennri lagareglu sem bannar mönnum að stofna lífi sínu í hættu með ýmis konar starfsemi og gera menn það iðulega án afskipta stjórnvalda, svo sem við iðkun alls kyns íþrótta. Má þar t.d. nefna fjallgöngur við hættulegar aðstæður, langsund í köldum sjó, flug úr mikilli hæð með tilbúnum vængjabúnaði, fallhlífarstökk o.m.fl. Lendi menn í lífsháska, sem þeir þekktu fyrir, geta þeir ekki átt kröfu um að opinberar hjálparsveitir komi þeim til bjargar.
Telja verður að þessi réttur manna sé varinn af 71. gr. stjórnarskráinnar og gangi hann því framar reglum í almennum lögum sem yfirvöldin hafa byggt á ákvarðanir sínar um bann við för og fastri búsetu í Grindavík.
Lagalegur grundvöllur þjóðfélagsins
Hér eru á ferðinni spurningar um þýðingarmikil atriði sem snerta lagalegan grundvöll þjóðfélags okkar. Rétt er að hafa nokkur orð um það.
Frumeiningar í ríki okkar, sem og annarra þjóða, eru mennirnir sem búa á vettvangi þeirra. Vald ríkisins stafar frá þeim, a.m.k. þar sem lýðræðislegt skipulag ríkir. Það felur í sér að stjórnendur ríkisins sækja vald sitt til fólksins í landinu og bera ábyrgð á meðferð þess gagnvart því. Borgararnir eiga í grunninn að ráða sjálfir eigin málefnum, enda raski þeir ekki hagsmunum annarra. Þrátt fyrir þetta eru dæmi um að ríkið fari með vald í málefnum, sem snúa að borgurum í heild og samskiptum þeirra á milli. Rekstur dómstóla, sem byggist á lögum er dæmi um þetta. Jafnframt getur ríkisvaldið ráðist til sameiginlegra verka sem snerta hagsmuni margra, jafnvel allra borgara. Dæmi um það er vegagerð í landinu og stofnun og rekstur annarra samgöngumannvirkja. Þessi starfsemi ríkisins byggist á settum lögum og raskar ekki stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna.
Sumir handhafar ríkisvalds virðast líta á ríkið sem eins konar félag, þar sem stjórnendur þess ráði hvaða málefnum borgaranna sem er. Þeir geti sagt félagsmönnum til um hvers kyns breytni þeirra. Þetta er misskilningur. Stjórnskipan okkar samkvæmt stjórnarskránni byggist á því að borgararnir hafi frelsi til að ráða sér sjálfir í málefnum sem ekki snerta aðra. Þeir bera þá ábyrgð á því sem þeir taka sér fyrir hendur og hróflar ekki við réttindum annarra. Það breytir engu þó að almennir borgarar kunni að vera á sama máli og handhafar ríkisvaldsins um þetta.
Mannréttindaákvæði stjórnarskrár ganga fyrst og fremst út á að vernda menn fyrir öðrum mönnum; ekki bara þeim sem beita aðra menn ofbeldi, heldur líka þeim sem vilja ráðskast með hagsmuni annarra án heimildar þeirra sjálfra.
Vera má að sumir sjái hvorki né skilji takmarkanirnar á valdi ríkisins á þann veg sem hér er talið. Þeir halda þá að handhafar ríkisvaldsins megi fara með vald sitt eins og þeim þóknast. Almennir borgarar hafi ekkert um þetta að segja nema þá kannski á kjördegi. Þetta stenst ekki í lýðfrjálsu ríki. Svo mörg voru þau orð.
Höfundur er lögmaður og fv. hæstaréttardómari.