Undrast að málefni Grindavíkur séu ekki rædd: „Ekki boðleg vinnubrögð“

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, í Suðurkjördæmi.

Ekki er gert ráð fyrir að málefni Grindavíkur séu rædd í velferðarnefnd Alþingis fyrr en á fimmtudag, þótt gert hafi verið ráð fyrir því að nefndir Alþingis tækju til starfa í gær að loknu jólaleyfi, skv. starfsáætlun þingsins.

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar og Suðurnesjamaður, gagnrýnir þetta og segir fundi hafa verið fallda niður í mörgum nefndum án útskýringa. Hann hafi óskað eftir því sérstaklega að málefni Grindavíkur yrðu strax rædd í velferðarnefnd, en fyrirhuguðum fundi hafi verið frestað.

„Í gær óskaði ég eftir því að málefni Grindavíkur yrðu sett á dagskrá á fyrsta fundi velferðarnefndar sem átti að vera í dag en er nú fyrirhugaður á miðvikudag. Ég fékk hins vegar það svar að ekki sé gert ráð fyrir setja þau mál á dagskrá fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag.

Mér þykir skrýtið að ekki sé verið að funda í velferðarnefnd þegar staðan í samfélaginu er eins og hún er, ekki bara í Grindavík heldur einnig á svo mörgum sviðum.

Heilbrigðismálin eru í algjörum ólestri þar sem tugir veikra einstaklinga hafa þurft að liggja á göngum á Landspítalanum og eldra fólk fær ekki þá þjónustu sem það þarf virkilega á að halda.

Mér finnst þetta ekki boðleg vinnubrögð,“ segir Guðbrandur.