Versnandi öryggishorfur og vaxandi spenna í alþjóðasamskiptum

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á öryggisráðstefnunni í München.

„Öll umræða og samtöl hér undirstrika versnandi öryggishorfur og vaxandi spennu í alþjóðasamskiptum. Lýðræðisríki þurfa að standa saman og vera reiðubúin að verja grunngildi og alþjóðalög í orði og verki,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sem tók þátt í árlegri ráðstefnu um öryggismál sem fram fór í München í Þýskalandi um helgina og átti í tengslum við hana fjölmarga tvíhliða fundi.

Vaxandi áhyggjur af stöðu alþjóðamála en breið samstaða um mikilvægi þess að styðja við varnarbaráttu Úkraínu og standa vörð um lýðræðisleg gildi voru þau málefni sem efst voru á baugi á ráðstefnunni, skv. vef utanríkisráðuneytisins.

Við opnun ráðstefnunnar tók utanríkisráðherra þátt í hringborðsumræðum þar sem fjallað var um þær áskoranir sem frelsi í heiminum stafar af öfgahyggju og einræðisríkjum. Þar voru frummælendur þau Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, Jens Stoltenberg, framkvæmdarstjóri Atlantshafsbandalagsins og Markús Söder forsætisráðherra Bæjaralands.

Utanríkisráðherra tók þátt í hringborðsumræðum um orkuöryggi á föstudag þar sem sjálfbærir orkugjafar og nauðsyn þess að hverfa frá jarðefnaeldsneyti voru helstu umræðuefni. Þar lagði ráðherra áherslu á sterka stöðu Íslands í þessum málaflokki og að dyrnar stæðu öðrum ríkjum opnar fyrir ráðgjöf Íslands á þessu sviði.

Á laugardag tók ráðherra þátt í hringborðsumræðum um öryggismál á norðurslóðum en vægi þeirra í alþjóðapólitísku samhengi hefur aukist mjög á undanförnum árum. Bjarni átti sömuleiðis fjölmarga tvíhliða fundi á ráðstefnunni m.a. með utanríkisráðherrum Palestínu, Tyrklands, Montenegró, Norður-Makedóníu og Bosníu Hersegóvínu.

Öryggisráðstefnan í München var haldin í sextugasta skiptið í ár og var afar vel sótt en af ríflega 900 þátttakendum voru um 50 þjóðarleiðtogar og 100 ráðherrar, ásamt fræðafólki og öðrum skoðanamótandi aðilum á sviði öryggis- og varnarmála.