Vinstri græn hafa frestað fyrirhuguðum flokksráðsfundi sem átti að standa í dag og á morgun í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Fundinum er sagt frestað „í ljósi eldsumbrotanna á Reykjanesskaga og áhrifa þeirra á yfir 30 þúsund manns á Suðurnesjum“ samkvæmt stuttri tilkynningu sem birtist á heimasíðu flokksins í gær.
„Ríkislögreglustjóri, í samstarfi við lögreglustjórann á Suðurnesjum, hefur ákveðið að fara upp á neyðarstig almannavarna. Af þessum sökum frestum við flokksráðsfundi. Staðan kallar á alla athygli ríkisstjórnarinnar og viðbrögð við þessum nýjustu eldsumbrotum. Við munum boða sem allra fyrst aftur til fundarins. Hugur okkar er hjá Suðurnesjamönnum,“ segir þar ennfremur.
Búist var við að stjórnarsamstarfið, einkum afstaðan til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs, frysting á framlögum Íslands til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna og aðstoð við fólk á Gaza, sem fengið hefur dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, kæmi meðal annars til umræðu á fundinum, auk fleiri mála. Á auglýstri dagskrá voru meðal annars ræður formanns og varaformanns, almennar stjórnmálaumræður, störf fastanefnda, kynning og afgreiðsla tillagna.
Landsfundarkjörnir fulltrúar í flokksráði eru 40 talsins en auk þeirra eiga sæti í ráðinu aðalmenn í stjórn, þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar hreyfingarinnar, formenn kjördæmisráða, formenn svæðisfélaga, fulltrúar ungliðahreyfingar flokksins og Eldri vinstri grænna.