Sjálfstæðisflokkur lagði fram tillögu um að hafinn verði undirbúningur rekstrarútboðs sorphirðu í Reykjavík á borgarstjórnarfundi í dag, en nágrannasveitarfélög hafa öll boðið út rekstur sorphirðunnar, en borgin rekur sína eigin sorphirðu.
Vart hefur farið framhjá neinum, að sl. sumar var nýtt flokkunarkerfi sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu og segir Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, að innleiðingin hafi gengið „vægast sagt illa í Reykjavík. Sorptunnur við heimili hafa staðið yfirfullar og ekki verið tæmdar svo vikum skiptir. Sömu sögu má segja um grenndarstöðvar víða um borgina“
Hildur bendir á, að á sama tíma hafi nágrannasveitarfélög tryggt nokkuð áfallalausa innleiðingu.
„Sjálfstæðisflokkur hefur reglulega lagt til að þjónustan verði boðin út. Hið opinbera á auðvitað ekki að standa í rekstri sem einkaaðilar geta sinnt bæði betur og hagkvæmar fyrir íbúa. Reynsla nágrannasveitarfélaga af rekstrarútboði hefur verið góð, þar eru gjaldskrár lægri og þjónustan betri,“ segir hún.
Fram kemur í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum í borginni, að til samanburðar sé gjald fyrir þrjár 240 lítra flokkunartunnur (pappírstunnu, plasttunnu og tvískipta tunnu fyrir blandað og lífrænt sorp) auk gjalds fyrir rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva samtals 90.500 kr. í Reykjavík en 62.500 kr. í Kópavogi, 68.798 í Hafnarfirði og 72.190 í Garðabæ.
Gjald fyrir sorphirðu er því um 45% hærra í Reykjavík en Kópavogi, auk þess sem hirðudagar eru fleiri og áreiðanlegri í Kópavogi en Reykjavík.
„Það eru hreinlega ekki nokkur rök sem styðja þá útfærslu að borgin reki eigin sorphirðu með um 70 starfsmönnum. Síðustu vikur hafa sýnt mjög glöggt hvernig einkaaðilum gengur betur að leysa þetta verkefni en hinu opinbera. Við leggjum því tillöguna aftur fram í dag og vonum að reynsla undanliðinna mánaða breyti afstöðu meirihlutans til málsins“, sagði Hildur.